02.05.1947
Neðri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (3121)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Sjútvn. d. hefur haft þetta frv. til athugunar og varð ekki fullt samkomulag um það, hvernig heppilegast væri að afgreiða það.

Til eru l. frá 1942 um að reisa nýjar síldarverksmiðjur, og samkv. þeim l. hafa nú að undanförnu verið reistar nýjar verksmiðjur, en þó er eftir að reisa nokkrar af þeim verksmiðjum, sem ákveðið er eftir þessum l., að reisa skuli. Þar er gert ráð fyrir því, að síldarverksmiðjur verði byggðar á Sauðárkróki, Hólmavík og á Húsavík, og er þeim framkvæmdum enn ólokið. Meiri hl. sjútvn. telur rétt, þar eð til er á annað borð heildarlöggjöf um að reisa nýjar síldarverksmiðjur, þá verði sett inn í þau l. nýtt ákvæði um að byggja þessa síldarverksmiðju á Norðausturlandi sunnan Langaness, svo sem hér liggur fyrir frv. um á þskj. 221. Hefur meiri hl. sjútvn. skilað um þetta áliti á þskj. 669 og breyt. í samræmi við þessa skoðun sína. Ég skal taka það fram, að þótt þessar breyt. verði gerðar á frv., er því engan veginn slegið föstu, í hvaða röð eigi að byggja þessar verksmiðjur, sem ákveðið er í l. frá. 1942, að skuli reisa. Verði það álitið heppilegra að láta þessa byggingu sitja fyrir öðrum sem eru í l. frá 1942, er slíkt á valdi ríkisstj. á hverjum tíma, því að í þeim l. er ekkert ákveðið um það, í hvaða röð þær framkvæmdir skuli gerðar.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, nema tilefni gefist frá hv. minni hl. sjútvn., og leyfi mér að vísa til nál. meiri hl. á þskj. 669.