06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (3125)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Í gær veitti ég því athygli, að á dagskrá hv. d. stóð m. a.: Frv. til l. um byggingu síldarverksmiðju á Norðausturlandi, 3. umr., atkvgr. Er því augljóst, að hæstv. forseti hefur látið umr. vera lokið síðastliðinn föstudag. Mér kom þetta undarlega fyrir sjónir og vil leyfa mér að láta í ljós óánægju mína út af þessari málsmeðferð. Ég er einn af flm. málsins og á brtt., sem ég átti eftir að fara nokkrum orðum um. Ég hafði einnig ætlað mér að ræða brtt. hv. meiri hl. sjútvn. og átti eftir að lýsa því yfir við hv. deild, að við flm. frv. mundum eftir atvikum telja það viðunandi afgreiðslu á málinu, að till. meiri hl. sjútvn. væri samþ., ef jafnframt væri samþ. brtt. mín á þskj. 742.

Þegar mál þetta var tekið fyrir til 3. umr. s. l. fimmtudag, þá var umr. fljótlega frestað sökum þess, að frsm. hv. meiri hl. sjútvn. var fjarverandi, og kaus ég þá að bíða með að ræða málið, þar til það yrði aftur tekið fyrir og hv. meiri hl. sjútvn. hefði gert grein fyrir sínum till.

Ég var lasinn síðustu daga vikunnar og rúmliggjandi. Ég gerði ráðstafanir til þess, að hæstv. forseti fengi að vita þetta fyrir föstudagsfundinn, en skal játa, að ég lét engin sérstök boð fylgja um, að ég óskaði þess, að málið yrði ekki þann dag tekið til umr., því að af framangreindum ástæðum gekk ég út frá því sem sjálfsögðu. Mér er það ljóst, að þetta hefur ekki nein áhrif á framgang málsins, en vil, að þetta komi fram og að ég undrast þessa málsmeðferð, sem ég tel, að stafi af einhverri vangá hjá hæstv. forseta. — Um leið og ég kvarta undan þessu, sé ég jafnframt ástæðu til að þakka hæstv. forseta fyrir þá augljósu velvild til málsins, sem komið hefur fram í því, að hann hefur gert það, sem unnt hefur verið, til að hraða afgreiðslu málsins í þessari hv. d., eftir að hv. sjútvn. hafði loksins skilað áliti um málið.