11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

221. mál, bifreiðaskattur

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessi skattafrv., sem hér liggja fyrir, eru vitanlega fyrst og fremst til komin vegna þess, að útgjöld ríkissjóðs síðustu ár hafa vaxið mjög frá því, sem áður var, og þó hefur ekki verið hægt að uppfylla allar þær óskir og till., sem komið hafa fram á hendur ríkissjóði. Ein tegund útgjalda, sem hefur vaxið einna mest síðustu ár, er vegaviðhald og vegagerð ríkissjóós. Þessi kostnaður var orðinn 1939 tæplega 1 millj. kr. eða nákvæmlega 836 þús. kr. Þessi kostnaður er 1946 kominn upp í 11 millj. kr., eða hafði á þessu tímabili þrettánfaldazt. Það hefur oft verið talað um það, að það væri ekki ósanngjarnt. að þeir, sem vegina notuðu, þ.e.a.s. bifreiðarnar og eigendur þeirra, greiddu að mestu leyti vegaviðhaldið. En þar fyrir utan kemur svo nýbygging þjóóvega, sem á fjárl. er áætluð 7 millj. kr. fyrir utan brtt., sem eiga eftir að koma fram við 3. umr. Hygg ég. að það sé ekki fjarri sanni, að útgjöld ríkissjóós til vegamála séu nú orðin yfir 20 millj. kr., og kröfurnar til vegakerfisins fara stöðugt vaxandi. Það eru geróar auknar kröfur um það, að vegum sé haldið við, og þykir mikið á skorta. að vegir séu í því lagi, sem ætti og þyrfti að vera. En það hefur ekki verið hugsað hærra í þeim málum en það, að bifreiðarnar eigi að greiða að mestu leyti vegaviðhaldið, sem er í kringum helmingur kostnaðar við vegagerð ríkissjóós. Þessar tekjur fær ríkissjóður nú með þrennum sköttum: benzínskatti, þungaskatti af bifreiðum og tolltekjum af hjólbörðum og slöngum, sem bifreiðarnar nota. Þessir skattar munu hafa numið á s.l. árum í kringum 2 millj. kr., og hefur þó heldur vaxið vegna þess aukna fjölda bifreiða, sem nú er kominn hingað til landsins. En 2 millj. kr. tekjur af þessu er þó ekki nema kringum sjötti partur af því, sem þarf að nota til vegaviðhaldsins eins. Hér er lagt til í þessu frv., að hækkaðir verði skattar af hjólbörðum og slöngum, þannig að þar sem áður var greidd 1 króna þá verði nú greiddar 3 krónur, og þungaskatti af bifreiðum verði breytt eða hann aukinn mjög verulega. Auk þess kemur svo hækkun á benzíni samkvæmt frv. um hækkun á aðflutningsgjöldum. sem fyrir liggur. Þessar hækkanir nema samkvæmt frv. í kringum 2 millj. kr., og hækkunin á benzínskattinum nemur samkvæmt grg. þess frv. í kringum 5 millj. kr., þannig að þessir skattar í heild með því. sem fyrir er, eru ekki komnir upp í meira en ca. 9 millj. kr., þ.e.a.s. þeir nægja ekki nærri fyrir því, sem fer til viðhaldsins eins. Mér virðist þess vegna ekki, að í heildinni sé hér óhóflega að farið. það orkar náttúrlega alltaf tvímælis, hvernig skipta eigi niður skattinum, og kemur það fram í brtt. hv. 2. þm. Reykv., sem vill undanþiggja atvinnubifreiðar, sem eigandinn ekur sjálfur. Ég hygg, að það verði erfitt að gera þá undanþágu og skera úr því, hvort eigandinn keyrir bílinn sjálfur eða hann lætur einhvern annan gera það. Enn fremur verður mjög erfitt í framkvæmd að undanþiggja jeppabifreiðir, sem skrásettar eru utan kaupstaóanna. Skrásetning bifreiðarinnar sker ekki úr um, hvar og hvernig hún er notuð. Því hygg ég, að þær undanþágur, sem hv. 2. þm. Reykv. stingur upp á, verði erfiðar í framkvæmd, án þess að óréttur sé gerður á annan hvorn veginn, að annaðhvort sé tekið af þeim, sem undanþegnir eiga að vera, eða þá að þeir sleppi, sem skattinn eiga að greiða. Ég vildi undirstrika hina miklu þörf ríkissjóðs á tekjum til að mæta þeim kostnaði. er fer til vegaviðhalds, og þeirri þörf er hvergi nærri fullnægt með þessum tollum. Enn eru gerðar kröfur um meiri framlög ríkissjóðs til vegamála, en það gengur ekki til lengdar að gera auknar kröfur, ef ekki er jafnframt bent á leiðir til að afla þeirra tekna, er með þarf til að mæta þeim kostnaði. sem uppfylling kröfunnar hefur í för með sér. Alls staðar úti um heim eru bifreiðar skattlagðar í þessu skyni. Hér á landi munu nú vera ca. 8.000 bifreiðar, eða 1 bifreið á hverja 16 íbúa, svo að bifreiðatalan er hér hlutfallslega mjög há og aðeins fá lönd, þar sem bílar eru hlutfallslega fleiri. Allur þessi bifreiðafjöldi gerir kröfur um aukið vegakerfi og kröfur um viðhald á þeim vegum, sem þegar eru. Það er því ekki óeðlilegt, að skattur sé lagður á bifreiðarnar til að mæta einhverjum hluta kostnaðarins. Víða erlendis eru þessir skattar meiri, t.d. er sums staðar lagður þungaskattur á vörubifreiðar vegna slits á vegunum. Þetta hefur þó ekki komið hér til umræðu, en hins vegar er þetta sjónarmið athugandi, hvort ekki mætti leggja þungaskatt á að nokkru leyti. Hv. 2. þm. Reykv. sagði. að þessir auknu skattar mundu nema um 3.000 kr. á hverja bifreið árlega. og virtist mér þetta væri eitthvert meðallag. En ég held, að þetta geti alls ekki verið meðaltal, þó að skatturinn gæti numið þessu af þeim bifreiðum. sem mikið benzín nota, því að skatturinn er áætlaður 7–8 milljónir og 8.000 skrásett ökutæki eru í landinu, og ætti því skatturinn að vera að meðaltali um 1.000 kr. Þessi skattur skiptist svo náttúrlega misjafnt niður eftir benzínnotkun, stærð og þunga. Úr því að það sjónarmið að láta bifreiðarnar borga vegaviðhaldskostnaðinn hefur ekki komið hér fram, taldi ég rétt að láta þessi orð fylgja með við þessa umr.