20.05.1947
Efri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (3131)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Björn Kristjánsson:

Herra forseti. Þegar fyrst byrjaði síldariðnaður á Norðurlandi, voru stöðvar stofnaðar við Siglufjörð og Eyjafjörð. Þá mun hafa verið lítil trú á, að um verulega síld væri að ræða miklu austar. Það mun hafa verið rétt að farið að byrja á þessum stöðum — líka með tilliti til þess, sem hv. frsm. tók fram, að það er gömul og ný reynsla, að síldin er yfirleitt feitari á vestursvæðinu en austursvæðinu. Það var ákaflega lítil trú á austlægara svæðinu þar til nokkru seinna, að Norðmenn reistu litla verksmiðju á Raufarhöfn og byrjuðu þar síldariðnað. Það kom þá í ljós, að það var oft mikil síld og engu minni á svæðinu við Melrakkasléttu og þar austan við en á svæðinu vestan við. Fyrir þennan skort á þekkingu á síldargöngum austarlega við Norðurland var eingöngu reynt að sjá fyrir verksmiðjuþörfinni á miðsvæðinu og vestursvæði síldveiðanna. Á þingi 1932 flutti ég frv. um það, að ríkið keypti þessa norsku verksmiðju á Raufarhöfn, því að þá var svo komið, að eigendur voru að verða gjaldþrota og gátu ekki haldið rekstrinum áfram. Þessu var ekki vel tekið. Mikill meiri hl. á þingi var á móti, og frv. var látið daga uppi. En 3 árum seinna, að ég hygg á þingi 1935, höfðu augu manna svo mjög opnazt fyrir nauðsyn þess að fá verksmiðju austur þar til þess að grípa til, þegar lítil síld var úti fyrir Norðurlandi, en mikil austar. Gekk því málið svo greiðlega gegnum Alþ., að ríkið keypti þessa litlu verksmiðju á Raufarhöfn. Við það, að ríkið byrjaði á að reka þessa verksmiðju, opnuðust augu manna enn betur fyrir því, að þarna var mikil nauðsyn að auka verksmiðjuafköstin. Leiddi það til þess, að 1940 var hafizt handa um byggingu nýrrar síldarverksmiðju á Raufarhöfn með 5 þús. mála afköstum í viðbót við þessa gömlu, norsku verksmiðju. Þetta var gert fyrir ákaflega eindregin meðmæli eða kröfu sjómanna, sem oft urðu að sækja veiði austur fyrir Sléttu, þegar síld var ekki fáanleg vestar, og voru menn að vonum óánægðir með að fara með hana til Siglufjarðar. Síðan hefur verksmiðjan starfað, og við það að stækka hana mikið, hefur síldveiðiflotanum gefizt tækifæri að nota veiðina á austursvæðinu miklu meir en áður, og hefur það orðið til ómetanlegs hagræðis og skapað stórum aukinn gjaldeyri fyrir íslenzku þjóðina, því að það að sigla með síld frá Þistilfirði og austar svo langt vestur hefði verið bæði feikileg tímatöf og orðið til þess oft og tíðum að eyðileggja vöruna, auk þess sem þetta er mikil eldsneytiseyðsla og í sumum tilfellum hættuleg leið fyrir sökkhlaðin síldarskip, þegar vont er í sjó. Fyrir austan Langanes er oft mikil síld.

Ég held menn geti verið sammála um, að sæmilega sé nú séð fyrir vinnsluþörfinni á miðsvæðinu og vestursvæðinu og engin ástæða sé að bæta þar við. Að þessu leyti er ég algerlega sammála hv. flm. og öðrum, sem talað hafa fyrir því, að verksmiðjuafköstin á Norðausturlandi væru aukin. Þess vegna hef ég skrifað undir þetta nál. Hins vegar skrifaði ég undir með fyrirvara og kem þá að því, að hann gildir lítils háttar breyt. á svæðinu, sem þessari verksmiðju er ætlað að starfa fyrir. Ég legg til, að í stað orðanna „sunnan Langaness“ komi „austan Rifstanga“. Þetta felur í sér möguleika fyrir Raufarhöfn og Þórshöfn að vera með. Með því að þekking á síldargöngum við Austurland er tiltölulega takmörkuð, álít ég breyt. til mikilla bóta. Það væri alveg skakkt á þessu stigi málsins að útiloka Þistilfjarðarhöfn frá að koma til greina sem staður fyrir nýja síldarverksmiðju. Það gengu s. l. sumar miklar sögur um nóga síld djúpt út af Norðausturlandi, miklu dýpra en síldveiðiskipin fóru. Má vera, að þetta sé rétt. En ég álít að áður en því er skilyrðislaust trúað, sé réttara að láta fara fram nýja athugun á þessu. Það mun nú ákveðið, að sérstakt skip verði haft til að annast síldarleit einmitt á þessu svæði, bæði út frá Austfjörðum og á öllu svæðinu út af Norðausturlandi. Ég álít þess vegna langt um heppilegra að slá ekki föstu á þessu augnabliki, hvort verksmiðjan verði reist sunnan Langaness eða norðan, því að ef kæmi í ljós við rannsókn og sennilega mjög auknar síldveiðatilraunir á þessum slóðum, að þar væri um litla síld að ræða, hygg ég það mundi koma nokkuð til álita að flytja frá þessum stað.

Hv. frsm. taldi eitt af því, sem líta þyrfti á við staðsetningu slíkrar verksmiðju, hver væri atvinnuþörf þess fólks, sem á þessum stöðum byggi. Ég vil alls ekki neita því, að taka megi eitthvert tillit til þess. Hins vegar álít ég, að fyrst verði það sjónarmið að ráða, hvar verksmiðjan er bezt staðsett fyrir síldveiðiflotann í heild. Og á þessu augnabliki álít ég of snemmt að slá því föstu. Ég geri ráð fyrir, að þeir, sem stefna að því að byggja 5 þús. mála verksmiðju á Raufarhöfn í viðbót, ætlist til, að hún sitji fyrir öllum öðrum framkvæmdum á þessu sviði. Að vísu er ekkert nefnt um það í þessum l. En verksmiðjustjórnin hefur ótvíræða heimild til að byrja framkvæmdir þar, ef hún telur það rétt. Ég álít bara, að slík verksmiðja sé ekki nægilega stór fyrir alla þá veiði, sem á austursvæðinu getur komið, þegar síldarlaust er vestarlega og næg síld austur frá. Annars getur Þórshöfn líka komið til greina. Er álíka langt þangað og til Raufarhafnar fyrir skipin, sem stunda veiði kringum Langanes. Á Þórshöfn er léleg höfn, en hana stendur til að bæta, og líður vonandi ekki á löngu, þar til þær framkvæmdir verða. En sá staður hefur alla aðstöðu betri á landi en Raufarhöfn. Þar er mjög byggilegt og feikimikil ræktunarskilyrði fyrir verksmiðjufólkið. Vatnsleiðsla er þar nægileg og ágæt.

Það leggja nú sumir mikið kapp á að fá þessa verksmiðju sunnan Langaness. Virðist mér þeir ekki sýna alveg eins góða trú á málstaðnum með því að vilja slá þessu föstu nú. Ég hef nú talað nokkur orð fyrir till. minni, og vona, að hv. d. taki þessi rök til greina. En ég lýsi yfir, að þó að till. mín verði felld, mun ég samt sem áður greiða atkv. með frv., því að vegna síldveiðanna í heild og aukningar á gjaldeyri, sem ég hygg, að leiði í ríkum mæli af aukningu verksmiðja við Norðausturland, álít ég, að ekki megi fresta framkvæmdum á byggingu einhverrar verksmiðju á þessum slóðum austur frá.