20.05.1947
Efri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (3133)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Lárus Jóhannesson:

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er flutt í Nd. af þm. úr Austfirðingafjórðungi og var samþ. þar í því formi, sem það liggur hér fyrir, af yfirgnæfandi meiri hl. dm. Þó að þetta mál sé flutt af þm. úr Austfirðingafjórðungi, og þeir hafi lagt niður, meðan málið er fyrir Alþ., allan ágreining um það, hvar væntanleg síldarverksmiðja eigi að vera, þá er þetta mál langtum víðtækara. Það er mál alls landsins og alls síldarflotans. Síldveiðarnar eru nú orðnar svo mikill þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar, að það má segja, að þær séu einn af aðalatvinnuvegunum og sá atvinnuvegur sem hvað tryggasta sölu hefur á afurðum sínum. En eins og kunnugt er, hafa allar þær síldarverksmiðjur, sem fyrir eru, verið staðsettar á Norðurlandi, sem er ekki nema eðlilegt. En nú er þannig háttað okkar landi og okkar veðráttu, að menn ættu ekki að vera búnir að gleyma því, að það geta komið fyrir þau ár, að allt Norðurland sé lokað af hafís, og hvert á þá sá stóri síldarfloti að snúa sér með afurðir sínar. Eins og kunnugt er, þá byggðust Austfirðirnir aðallega í kringum 1880–1890 og urðu að kaupstöðum, aðallega vegna síldveiða, sem þar voru. Einmitt þessi ár, sem Austfirðir voru að byggjast, veru hafísar fyrir Norðurlandi. Þá var síld inni í hverjum firði og flóa þar, og var ekki til þess komið, að það væri farið að reka neinar verksmiðjur á Norðurlandi. Þetta getur vel komið fyrir aftur. Það verða engar fregnir sendar þar á undan, svoleiðis að þó að aðeins væri litið á byggingu síldarverksmiðju fyrir austan Langanes sem tryggingarráðstöfun fyrir þennan mikla flota, sem yrði atvinnulaus, ef hafís kæmi, þá er það forsvaranleg ráðstöfun, jafnvel þó að verksmiðjan hefði ekkert annað að gera en að vera til tryggingar fyrir flotann, á sama hátt og menn tryggja eigur sínar. En af þessum ástæðum er það, að ég vil mæla á móti till. hv. þm. N-Þ., sem staðsetur verksmiðjuna, af því að ég álít fullkomna nauðsyn á því, að síldarverksmiðjan verði einmitt fyrir sunnan Langanes. En það er svo langt frá því, að ég haldi það, að síldarverksmiðja á Austurlandi þurfi að standa auð og vera einungis sem tryggingarráðstöfun. Ég er sannfærður um það, að hún út af fyrir sig mundi bera sig vel og veita sjómönnum, útgerðarmönnum og þjóðinni í heild bæði gróða og tryggingu. Það er sem sé kunnugt, að íslenzkir sjómenn hafa yfirleitt ekki fengizt til að halda sig á austurmiðum, þó að þar sé meiri og minni síld á hverju vori. Það virðist svo, að síldin sé að breyta göngu sinni og liggi austlægar nú en verið hefur.

Það hefur verið lagt hér fram bréf frá stjórn síldarverksmiðja ríkisins, þar sem hún mælir á móti, að lagt verði út í þessa verksmiðjubyggingu. Ég verð nú að álíta, að þetta bréf sé eingöngu frá meiri hl. stjórnarinnar, því að bréfið ber það með sér, að till. var samþ. með 3:2 atkv. Það er sem sé vitað, að 2 af 5 stjórnarnefndarmönnum verksmiðjanna eru meðmæltir því, að frv. þetta nái fram að ganga, og ég verð að segja, að þær ástæður á móti því, sem færðar eru fram í bréfinu, eru að mínu áliti ekki veigamiklar. Fyrsta ástæðan er það, að reynsla sú, sem fengizt hafi af rekstri síldarverksmiðjanna í Neskaupstað og á Seyðisfirði, bendi eindregið til þess, að ekki sé hægt að láta slíka verksmiðju bera sig á þessum slóðum. Ég verð að halda á móti því, að þetta sé rétt, og ég álít, að síldarverksmiðjustjórn hefði sem minnst átt að tala um reynsluna af síldarverksmiðjunni á Norðfirði. Eftir því sem mér er sagt af kunnugum, þá var reist slík síldarverksmiðja þar, og hún komst í fjárþröng eins og mörg fyrirtæki þá og var yfirtekin af landsbankanum og rekin með góðum hagnaði í 2 ár. Svo keypti síldarverksmiðjustjórn hana til að selja hana. Um síldarverksmiðjuna á Seyðisfirði er það að segja, að eftir að hún kemst í hendur manna, sem kunnugir voru þessum málum, þá hefur hún borið sig vel öll þessi ár, og ég vil vekja athygli á því, að í þá verksmiðju hafa ekki lagt upp önnur skip en færeysk skip, sem hafa miklu verri útbúnað en íslenzk skip. En þrátt fyrir það að skilyrði til móttöku fyrir austan voru verri en á Norðurlandi, þá hefur útkoman orðið sú síðustu 3 árin, að meðalafli þessara skipa hefur orðið meiri en meðalafli sambærilegra skipa, sem skipt hafa við síldarverksmiðjur ríkisins. Meðalafli þessara skipa hefur verið:

Hjá Seyðisfjarðarverksmiðjunni.

Árið 1944 meðalafli 12244 mál

— 1945 — — 3126 —

— 1946 — — 5323 —

Hjá síldarverksmiðjum ríkisins :

Árið 1944 meðalafli 10323 mál

— 1945 — — 1465 —

Það er því ýmislegt, sem bendir til þess, að þessi síldarverksmiðja geti borið sig, a. m. k. ekki síður en aðrar verksmiðjur, og það er einmitt það, sem ég vil sérstaklega benda á, að undanfarin síldarleysisár munar þetta miklu á meðalaflanum: Þá má benda á það til þess að sýna, að þessar tölur eru miklu óhagstæðari síldarverksmiðjum ríkisins en Seyðisfjarðarverksmiðjunni, að þessi skip, sem þarna veiddu, hafa ekki þau þægindi, sem önnur skip hafa, t. d. að leitað var eftir síld með flugvélum.

Það er alveg óhætt fyrir hvaða síldarverksmiðjustjórn, sem er, að vera bjartsýn, þegar Austurlandið er annarsvegar, því að í grein, sem Árni Friðriksson skrifaði nýlega í Ægi, heldur hann fram, að sú síld, sem átti að gera aðalveiðina s. l. ár, hafi haldið sig norðar og austar en gert var ráð fyrir, og hann hefur snúið sér til verksmiðjustjórnarinnar og lagt til, að flogið yrði austur frá Langanesi, eins langt og þurfa þætti, til að leita síldar á djúpinu, og einnig norður af landinu, einkum austan til. Þessu hefur þó ekki verið sinnt. Þó er það vitað, að í júnímánuði er alltaf mjög mikil síld í hafinu milli Færeyja og Íslands, en það hefur ekki verið reynt að veiða hana. En nú loks er mér sagt, að fyrir forgöngu Hafsteins Bergþórssonar útgerðarmanns eigi að senda skip til að athuga þessar síldargöngur. Þá er einnig vitað, að vetrarsíld er á hverju ári í fjörðunum, og að árin 1931–33 var hún mjög mikil. Torfurnar voru svo þykkar, að lagnet sukku, ef þau voru lögð út, mestan hluta vetrar á sumum fjörðum, en síldin kom ekki að neinum notum. Þá er loks vitað, að togarar, sem hafa verið við veiðar austur af Lónsbugtinni, hafa stundum fyllt vörpur sínar af síld, svo að vitað er, að síld er við botninn síðsumars og á haustin út af Austurlandi. Ég held því, að flest rök mæli með því, að ráðizt verði í þessa byggingu og það sem fyrst.

Hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. hafa skrifað undir nál. með fyrirvara og vilja draga úr fyrirskipuninni um að byggja þessa verksmiðju. Ég hef ekki getað fallizt á, að vægar verði orðað í frv. en það kom frá Nd., og er það sérstaklega vegna afstöðu síldarverksmiðjustjórnar. Ég á við, að eins og meiri hl. hennar hefur tekið á þessum málum, sé nauðsynlegt, að fyrir liggi bein fyrirskipun Alþ. En hitt er svo vitanlega annað mál, að þó að lagt sé fyrir að byggja verksmiðju 1948, en fé er ekki fyrir hendi, t. d. ef síldveiði bregzt eða eitthvað kemur fyrir, þá er hægt að leggja þessa ákvörðun undir endurskoðun þingsins aftur. Því hefur verið haldið fram og það sjálfsagt með nokkrum rétti, að fitumagn síldarinnar sé minna á austursvæðunum en vestursvæðunum. Þetta kemur náttúrlega að sök, þegar lýsi er nú í töluvert hærra verði en síldarmjöl. En ég man eftir því, að í skýrslu, sem verksmiðjustjórnin sendi okkur til athugunar, þar sem yfirlit var yfir lýsissölu og mjölsölu, að þá var a. m. k. eitt árið mjölið í helmingi hærra verði en lýsið.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta núna, en vildi mælast til þess, að d. samþykkti frv. óbreytt, eins og það kom frá Nd.