20.05.1947
Efri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Pétur Magnússon:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að flytja brtt. við frv. það, sem nú er til umr. á þskj. 869. Legg ég þar til, að síðari málsl. 1. gr. frv. verði felldur niður, þ. e. a. s. að ríkisstj. eða stjórn síldarverksmiðjanna verði eigi gert að skyldu að hafa lokið undirbúningi að byggingu verksmiðjunnar á árinu 1947 og ekki sé heldur gert að lagaskyldu að hefja framkvæmdir á árinu 1948. Ég þarf í raun og veru mjög lítið um þessa breytingu að segja, því að 1. landsk. hefur í grg. fyrir sinni brtt. jafnframt gert grein fyrir, á hverju mín till. er byggð. Sannast að segja er mjög veigalítill munur á þessum tveim brtt., og ég mun að sjálfsögðu, svo framarlega sem mín brtt. verður felld, greiða atkv. með till. hans og læt mér raunverulega í léttu rúmi liggja, hvor till. verður samþ.

Það eru aðeins örfá atriði, sem ég vildi bæta við það, sem hv. 1. landsk. tók fram í sinni ræðu. Ég verð að láta þá skoðun í ljós, að það orki a. m. k. nokkurs tvímælis, hvort Íslendingum sé nú brýnust þörf á auknum síldarverksmiðjum. Hv. 1. landsk. sagði, að afköst verksmiðjanna mundu verða kringum 70 þús. mál, og ég held, að afköst séu frekar yfir það á sólarhring en undir. Á síðustu árum hafa verið byggðar a. m. k. þrjár verksmiðjur, auk þess sem afköst nokkurra verksmiðja hafa verið aukin, og heildarafkastaaukning síðustu þriggja ára er því mjög mikil, svo framarlega sem þær vonir rætast, sem gerðar hafa verið um afköst nýju ríkisverksmiðjanna — og líklega er ekki ástæða til að véfengja, að þær vonir muni rætast.

Mér er að sönnu ljóst, að þó að afköst verksmiðjanna séu milli 70 og 80 þús. mál á sólarhring, þá getur komið fyrir í mjög skörpum síldarhrotum, að einhverjar tafir verði á affermingu skipanna, en hins vegar er ég á þeirri skoðun, að það sé hæpin hagfræði að ætla sér að gera afköst síldarverksmiðjanna svo mikil, að aldrei kæmu fram löndunartafir við þær. Það má ekki gleyma því, að síldarverksmiðjurnar kosta mikið fé, og það var réttilega fram tekið hjá hv. 1. landsk., að því meiri skuldabaggar sem lagðir eru á verksmiðjurnar, þeim mun lægra verð fá sjómenn og útgerðarmenn hlutfallslega fyrir framleiðsluna, því að aldrei verður hjá því komizt, að árlega sé greitt það, sem tilskilið hefur verið og vextir og afborganir af lánum, sem á hvíla. Eins og hann tók fram, mun lánið nema yfir 50 millj. kr., þegar búið er að fullgera nýju verksmiðjurnar. Þótt ef til vill megi segja, að vextir og afborganir af 50 millj. kr. sé ekki svo mjög þungbært, meðan síldarafurðir haldast í því verði, sem nú er, þá ætti hver maður að geta séð í hendi sér, að ef afurðir falla í það normala verð, sem mun vera eitthvað kringum 15 sterlingspund fyrir tonnið af síldarlýsi og eitthvað lægra fyrir mjölið — ef afurðir falla í þetta, getur hver maður séð, hve voðalegur baggi það er fyrir verksmiðjur og eigendur að standa undir 50 millj. kr. láni. Ég held því, ef eitthvað á að horfa fram í tímann, þá sé tryggilegast að gefa síldarverksmiðjunum tækifæri til þess að lækka verulega þær skuldabyrðar, sem á þær hafa verið lagðar.

Það er á það bent, að síldveiðiflotinn hafi stækkað, og það er vitanlega rétt. Bæði hefur skipum fjölgað og þau skip, sem síldveiðar stunda, eru stærri og afkastameiri en þeir bátar, sem við fram að þessum tíma höfum orðið að notast við. En það liggja engin óræk rök fyrir því, að meðalafköst verði eins mikil, þegar nótum fjölgar eins mikið og raun hefur orðið á. Það má vel vera, að munur á meðalafköstum verði mikill, þegar sjór er svartur af síld frá Horni til Langaness, og þá geri ég ekki ráð fyrir, að skipti miklu máli, hvort 150, 200 eða 300 skip stunda veiðar. En þegar síld er á takmörkuðum svæðum eins og venjulega, veldur það því, að meðalafköst skipa minnka verulega þegar mjög stór floti þyrpist að. En ef þessi yrði raunin á, hygg ég, að óhætt sé að fullyrða, að engin óyggjandi rök séu fyrir því, að þau afköst, sem þær síldarverksmiðjur gefa, sem í notkun eru, verði ekki nægileg í allri venjulegri veiði. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að við megum einnig varast það — og láta þá vítin verða til varnaðar — að gera atvinnurekstur voru of einhæfan. Við megum minnast þess, að þegar þorskveiðin var svo að segja eina atvinnugreinin, sem bar uppi utanríkisverzlunina, þá var þröngt fyrir dyrum hér. Og eins og er, þá er síldarbræðslan orðin svo veigamikill þáttur í atvinnulífi okkar og farin að yfirganga flestar aðrar greinar atvinnulífsins svo mjög, að það getur orkað tvímælis, hve lengi á að halda áfram á þeirri braut. Við munum þá tíma, þegar síldarlýsið var komið í 9 £ tonnið og síldarmálið í 30 kr. Og þó að við óskum þess að sjálfsögðu, að við eigum ekki eftir að lifa þá tíma upp aftur, þá höfum við enga tryggingu fyrir því, að það geti ekki endurtekið sig. Ef það kæmi fyrir og með þeirri þenslu, sem nú er á öllum sviðum þjóðlífsins, þá býst ég við, að það gæti haft sömu afleiðingar fyrir okkur eins og þegar þorsk- og saltfiskverðið féll á sínum tíma úr öllu valdi. Það er eins og það vilji gleymast, sérstaklega þegar vel árar fyrir einhverja atvinnugrein, að í þeim flestum eru miklar sveiflur, og þó að ein atvinnugrein sé álitleg og gefi góðar vonir um arð í ár, er ekki víst að svo verði árum saman. Og ég verð að segja það, að mér finnst því ekki hafa verið nægur gaumur gefinn nú á undanförnum árum, og er mér fullljóst, að við mikla örðugleika er að stríða, að notfæra síld á annan veg en þann eina að búa til úr henni lýsi og mjöl. Það er vitað, að íslenzk hafsíld, sem veiðist hér, er betur fallin til söltunar en líklega nokkurs staðar annars staðar í heiminum, og því er ömurlegt til þess að hugsa, að saltsíldarframleiðslan skuli ekki vera nema lítið brot af framleiðslu hjá öðrum, nálægum þjóðum, sem mikið hafa verið við veiðar nálægt okkur. Ég held, að við ættum, eins og sakir standa, að beina huganum meira að því að auka saltsíldarframleiðsluna og fá nýja markaði fyrir saltsíld og kynna hana í þeim löndum, sem ekki kunna að notfæra sér hana, heldur en halda áfram þeirri gegndarlausu þenslu í verksmiðjuiðnaðinum. Við höfum verið svo lánsöm að koma saltsíldinni á nýja markaði að undanförnu, markaði í fjölmennum löndum, sem án efa gætu notað alla okkar saltsíld, ef hún er seld hæfilegu verði, þó að framleiðsla hennar væri margföld við það, sem nú er. Erfiðleikar á undanförnum árum hafa fyrst og fremst legið í því, að erfiðlega hefur gengið að útvega síldartunnur, en ekki af því að dregizt hafi að selja framleiðsluna, einnig hefur framleiðslan orðið dýrari hjá okkur en góðu hófi gegndi.

Ég skal nú ekki fara að rekja þau rök, sem komið hafa fram, bæði frá stjórn síldarverksmiðjanna og frá einstökum þm. gegn því, að síldarverksmiðja verði byggð austanlands. 1. landsk. hefur tekið fram það, sem ég tel ástæðu til að nefna, og vil ég ekki endurtaka það, sem hann sagði um það. Þrátt fyrir það að margvísleg rök hafa verið lögð fram gegn þessu, hef ég ekki viljað setja mig móti því, að heimild sé í l. til þess að reisa verksmiðju einhvers staðar á Austurlandi. Mér er ljóst, að óskir héraðsbúa á þessum svæðum um að fá síldarverksmiðju eru skiljanlegar, og má vera, að ekki liggi fyrir enn þá sú rannsókn á þessu máli, að hún hafi leitt í ljós með neinu öryggi, að ekki geti verið réttlátt að reisa verksmiðju á þessu svæði. Hins vegar eru rök, sem hafa komið fram fyrir því, að verksmiðju ætti að byggja austanlands, næsta veigalítil, og vil ég í þessu sambandi benda á, að höfuðrökin, sem hv. þm. Seyðf. færði fram fyrir nauðsyn á síldarverksmiðju á Austurlandi, nálgast það að vera brosleg. Hann talaði um, að fyrir hefði komið, þó að það hefði ekki verið síðustu áratugi, að Norðurland lokaðist af hafís. Vissulega getum við ekki fullyrt, að það komi ekki fyrir. Það mun hafa komið fyrir oftar en einu sinni,. að hafís væri landfastur fram á höfuðdag. En ég er ákaflega hræddur um það, að þó að 5 þús. mála verksmiðja kæmi á Seyðisfirði, yrði síldveiðiflotinn með 250–300 nótir litlu bættari fyrir það. Þau afköst skipta tæplega neinu teljandi máli fyrir útgerðina eða þjóðarheildina. En á þessu stigi málsins virðist mér það nægilegt að veita ríkisstj. og stjórn síldarverksmiðjanna heimild til að reisa verksmiðju á Austurlandi, ef eftir nákvæma athugun þætti skynsamlegra og arðvænlegra fyrir landið í heild sinni og fyrir atvinnureksturinn, sem hér um ræðir, að svo yrði gert. En að leggja skyldur á þessa ríkisstofnun um að auka skuldirnar, sem þegar eru of háar, í dýrtíðinni og verðbólgunni með því að byggja verksmiðju fyrir 10–20 millj. kr., álít ég ekki verjanlegt. Og þótt mér, af ýmsum ástæðum, hefði verið kærara að geta stutt að þessu máli, þá verð ég að segja eins og er, að vegna sannfæringar minnar í þessu máli, hef ég ekki treyst mér til að gera það. Ég verð að segja, eins og er, að þeir, sem hafa beitt sér fyrir þessu máli, geta fullkomlega sætt sig við þá lausn, sem ég og hv. 1. landsk. höfum stungið upp á. Þeir ættu að geta treyst því, að hafizt yrði handa svo fljótt sem fært þætti um að byggja verksmiðju á Austurlandi, svo framarlega sem einhverjar athuganir á þessu máli leiddu í ljós, að það þætti hyggilegt. En framar skilst mér, að þeir eigi heldur ekki. kröfu.