22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (3143)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 780, um breyt. á l. um að reisa nýjar síldarverksmiðjur, er nú dálítið hjáróma við l. um byggingu síldarverksmiðja yfir höfuð. Og ég sé nú ekki, að með því sé svo mikill sigur unninn hjá þeim, sem hafa barið þetta mál í gegn þannig, eins og það liggur nú fyrir, eftir að felldar hafa verið brtt., sem áttu fullan rétt á sér, við afgreiðslu þessa máls.

Við 2. umr. þessa máls hér í hv. d. var felld brtt. frá hv. 1. þm. Reykv. og önnur brtt. frá hv. 1. landsk. Báðar áttu fullan rétt á sér, og hefði átt að samþykkja aðra hvora. Hv. d. hefði sýnt þessu máli miklu meiri sóma með því að samþykkja þær brtt. en með því að afgreiða það eins og það er nú.

Það er í sjálfu sér tilgangslítið að samþykkja hér á Alþ. l. um, að reisa skuli á einhverju ári síldarverksmiðju, án þess að á nokkurn hátt hafi verið séð fyrir því að fá fé til þess að gera það. Ég verð nú að segja það, að mér finnst alveg nægilega mikið fyrir hjá ríkisstj. af ýmiss konar samþykktum frá hv. Alþ., sem þó hafa verið gerðar þannig, að þeim hefur fylgt heimild til lántöku eða því um líkt, en er þó ekki kostur þrátt fyrir það að koma í framkvæmd, vegna þess að peningana skortir til þess, þó að ekki sé verið að bæta þar við á þennan hátt. Ég er þó ekki að bera brigður á það, að þetta mál eigi rétt á sér og það geti verið hyggilegt spor að reisa síldarverksmiðju sunnan Langaness, eins og hér er komizt að orði, en ég álít, að hv. Alþ. eigi við afgreiðslu þeirra mála að taka fullt tillit til alls þess, sem gera þarf, til að vaka yfir því, sem skrifað er á pappírinn um, að skuli gert, og það er þá einkanlega að athuga þann fjárhagslega grundvöll, sem þarf að vera fyrir því, að svona stór fyrirtæki komist á fót. Við erum búnir að fá allátakanlega reynslu um það hér í þessu landi, hvað það getur kostað að byggja síldarverksmiðju, og satt að segja hefði maður getað vænzt þess, að hv. d. hefði verið svo minnug þeirra umr., sem hér hafa farið fram um þann kostnað, sem öllum ofbýður, bæði á síldarverksmiðjunni á Siglufirði og á Skagaströnd — nægilega minnugir þess til þess að afgreiða svona mál með einhverjum ríkari fjárhagslegri forsendum. en hv. d. hefur gert.

Nú veit ég það, að brtt. líkar þeim, sem hafa verið felldar, mundu annaðhvort verða felldar aftur eða þær yrðu til þess, að frv. yrði sent aftur til hv. Nd., og gæti það þá ef til vill orðið til þess, að það dagaði uppi. Ég hirði ekki um að vera þess valdandi að svo fari. En ég vil taka það fram um fjárhagshlið málsins, sem reyndar allir hv. þm. hljóta að gera sér ljóst, að því aðeins er hægt að fara út í svona framkvæmdir, að það sé unnt peninganna vegna. Nú, við skulum segja, að það komi að því á síðari stigum þessa máls, að þingið geri ráðstafanir til þess, ef þetta frv. verður að l., sem ég geri ráð fyrir: Ég hef lýst því hér yfir, að ég vil ekki verða til þess að tefja þetta mál eða torvelda það með því að bera fram brtt., sem gæti orðið til þess, að málið færi til hv. Nd. Þegar frv. er afgr. hér og orðið að l., er sjálfsagt að láta fara fram athugun og rannsókn á því, og yrði það hvort sem er fyrsta sporið í þessu máli. En hitt veit ég, að hv. þm. ætlast alls ekki til, að byggingarframkvæmdir hefjist á árinu 1948, án þess að séð sé fyrir sérstöku fé í því efni, enda væri það gagnslítið, þó að til þess væri ætlazt, því að ríkisstj. hefði ekki tök á því að hefja þær framkvæmdir, svo að neinu næmi, og yrði slíkt ekki nema málamyndaframkvæmdir nema því aðeins, að nægilegt lánsfé væri tryggt til þess að koma verksmiðjunni upp.

Ég taldi rétt að lýsa yfir þessu nú, eins og ég hef nú talið fram, þó að það í raun réttri leiði allt af sjálfu sér, þegar málið er afgr. á þann veg, sem hér horfir við.

Ég geri ekki ráð fyrir, að undirbúningur og athugun á þessu máli þurfi að kosta stórfé, svo að út í það sé ekki unnt að fara án frekari aðgerða af þingsins hálfu. En hitt er, eins og ég áður hef lýst, verkefni, sem hlýtur að verða háð því, að aflað hafi verið fjár fyrst til þeirra framkvæmda. Fyrr getur enginn ætlazt til, að því verði hrundið í framkvæmd, svo að neinu verulegu nemi. Ég hef séð opinberar raddir um það, að menn líta á þetta þannig á sumum stöðum, að með því bara að samþykkja þetta frv., þá sé stór sigur unninn í þessu máli. Og stjórn síldarbræðsluverksmiðjanna hefur í því sambandi verið borin sökum um það a.ð hafa viljað spilla fyrir málinu. Ég vil lýsa því yfir, að ég lít alls ekki þannig á afstöðu stjórnar síldarbræðslunnar. Ef sú athugun og sú rannsókn, sem fram verður látin fara, leiðir í ljós, að það verði áframhaldandi talið hyggilegt að reisa þessa verksmiðju, þá hlýtur af því að leiða, að Alþ. geri sína skyldu — hvaða ríkisstj., sem þá verður — og sjái fyrir því fé, sem þarf til þess að koma verkinu í framkvæmd.