22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (3144)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. fjmrh. fyrir það, sem hann hefur lýst yfir hér. Það er í raun og veru nákvæmlega í samræmi við það, sem hefur verið gert af meiri hl. sjútvn. í málinu. Hæstv. fjmrh. sagðist ekki hirða um að verða til þess, að málið þyrfti að fara héðan úr hv. d. til hv. Nd., og það er einmitt það, sem n. vildi heldur ekki gera, að setja málið í þá hættu, og þá einnig með tilliti til þess, að nú erum við að ganga frá frv. til l. um fjárhagsráð, sem verður ekki gengið fram hjá. Og að sjálfsögðu verður þetta ekki sett á fjárl. 1947 eða 1948.

Ég vil í sambandi við ummæli hæstv. fjmrh. um það, að það hefði verið sagt, að stjórn síldarverksmiðjanna hefði viljað spilla fyrir þessu máli, taka fram, að þá hugmynd höfum við ekki fengið í sjútvn. um afstöðu þeirrar stjórnar. Meiri hl. stjórnar síldarverksmiðjanna mætti á fundi í sjútvn., og urðum við ekki varir við neina andúð frá hennar hálfu á þessu máli. Hún lagði fram gögn um það, sem hún taldi fjárhagslegan tilkostnað og því um líkt, og það kom engin andúð fram hjá henni í garð málsins.

Ég lagði mesta áherzlu á það í málinu, að tæknilegur undirbúningur yrði hafinn og að sú rannsókn verði látin fara fram, sem hæstv. ráðh. gat um, og t. d. leitað tilboða um kaup á vélum og síðan verði ekki gerðar neinar framkvæmdir fyrr en bæði ríkisstj. og ef til vill Alþ. getur sjálft tekið frekari ákvörðun um þetta mál.

Ég sé ekki, að beri mikið á milli n. og hæstv. fjmrh. Ég sætti mig fullkomlega við, að ekki verði ráðizt í meiri framkvæmdir en að reynt verði á sem skynsamlegastan hátt að hefja undirbúning, þegar fært er, svo að málið geti orðið sem allra bezt undirbúið.