13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

192. mál, fyrningarsjóður ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar að fá nánari grg. fyrir tveim atriðum í þessu frv., því að mér er ekki alveg ljóst, hvort þau eiga að vera eins og hér segir. Í 1. gr. er tekið fram, að fasteignir ríkissjóðs skuli taldar fram með fasteignamatsverði, en ef um ríkisstofnun er að ræða, þá má telja eignirnar fram með kostnaðarverði. Af hverju er þessi mismunur? Mér er það ekki ljóst. Mér er ekki ljóst, hvers vegna á að fara að telja útvarpsstöðina og landssímahúsið fram með kostnaðarverði, en hús, sem einhver prestur býr í hér í Reykjavík, með fasteignamatsverði. Hér hefur verið á ferðinni frv. um að byggja prestsseturshús, og fasteignamat þessara húsa, þegar búið er að byggja þau, er í kringum 60–65% af því, sem kostaði að byggja þau 1939, en það er grundvöllurinn undir fasteignamatinu. Þá kemur mikil afskrift árið, sem þau eru byggð, ef telja á þau til eignar á fasteignamatsverði og þau eru afskrifuð strax fyrsta árið niður í það. Hvers vegna á ekki að koma sama afskrift á símahúsið á Akureyri sama árið og það er byggt? Því á ekki að gilda það sama um þetta tvennt? Í öðru lagi held ég, að það sé réttara að láta afskrifa öll hús árlega, hvort sem það eru steinhús eða timburhús eða torfbæir, því að það eru nokkur prestsseturshús, sem eru torfbæir, og það þarf að bæta því inn í lögin, því að þá þarf ekki síður að afskrifa. En því ekki að afskrifa þetta með sömu afskriftarprósentu og er í skattalögunum á hverju ári. Ég á eftir að heyra útskýringu á því, hvers vegna er afskrifað hér með annarri prósentu en hjá hinum almennu borgurum, og hvers vegna ekki á að afskrifa af torfbæjum. Þarf ekki að endurnýja þá eins og hin húsin? Annars er ég meðmæltur frv., en ég held, að þetta séu atriði, sem þarf að athuga og laga og bæta inn í torfbæjunum.