06.05.1947
Efri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

192. mál, fyrningarsjóður ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir upplýsingarnar, þótt þær séu ekki nægilegar. Ég hef litið svo á, að fyrningarsjóður ríkisins sé stofnaður í því skyni að leggja til hliðar fé, svo að hægt væri að endurbyggja þau hús, sem fyrnt væru. Ef fyrnt er á fasteignamati, þá vil ég spyrja, hvort það komi nóg í fyrningarsjóð til að endurbyggja t. d. eitt hús, sem kostar nú 200 þús. kr. og er úr steini og ætlað að endast í 100 ár. Á fasteignamati mun það sennilega virt á 20 þús. Ég held það muni vanta mikið á, að hægt sé að endurbyggja það, þegar það hefur gengið úr sér, og sé því miklu réttara að fyrna það af kostnaðarverði. Ég mun ekki gera þetta að ágreiningsatriði. Ég vil aðeins benda hv. n. á þetta. En hún gerir kannske ráð fyrir því, að allt fari lækkandi, svo að verðlag nálgist það, að fasteignamatið, sem er 60% af kostnaðarverði 1939, verði eðlilegur grundvöllur. En ég held það verði ekki. Ég hef ekki trú á, að nokkurn tíma komi til slíkrar lækkunar hér á landi. Og þess vegna muni ekki nást nóg í sjóðinn til að endurbyggja, þegar þess verður þörf. Mér er ljóst, að þetta mun ekki hafa nein áhrif á leiguliðabótina, þótt samþ. yrði. En mér er jafn ljóst, að af þeim húsum verður fyrnt tvisvar. Annars vegar með því að láta ábúendur fyrna og leggja í sérstakan sjóð og hins vegar með því að láta ríkið fyrna sömu hús og leggja í fyrningarsjóð. Það er áreiðanlegt, að hver jörð hefur leiguliðabót án tillits til þess, hvort ríkið hefur lagt mikið eða lítið til framkvæmda á henni. Þetta get ég borið um af eigin reynslu, þar sem ég hef undirskrifað bréf fyrir 10–20 menn, sem allir hafa verið látnir borga leiguliðabót án tillits til þess, hvort ríkið hefur lagt mikið eða lítið til jarðanna og stundum ekkert. Þá finnst mér vanta, hvernig eigi að fyrna torfbæina, sem ríkið mun eiga. En þeir munu vera um 2000. Það er ekkert talað um, hvaða fyrningarprósenta skuli notuð við þá? Mér finnst þetta þurfi að athuga nánar en gert hefur verið. N. hefur kastað til þessa höndunum og treyst eingöngu á þá menn, sem sömdu frv. Hins vegar mun ég ekki beita mér á móti frv., þótt það verði ekki lagfært.