07.02.1947
Neðri deild: 68. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (3201)

158. mál, framfærslulög

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég vil taka undir það með hv. frsm., 4. þm. Reykv., að þetta mál verði tekið til gaumgæfilegrar athugunar í hv. heilbr.- og félmn. Eins og grg. ber með sér, er frv. samið af sérstakri n., sem falið var að gera frv. Ég hef ekki átt þess kost þá fáu daga, sem ég hef haft þessi mál með höndum, að kynna mér frv. og hin nýju ákvæði þess né gera samanburð á því og löggjöfinni um almannatryggingar. En á þessu stigi vildi ég taka undir orð hv. frsm. Og ég fyrir mitt leyti er ekki reiðubúinn til þess, eins og hann lýsti yfir af sinni hálfu, að slá því föstu, að breytt skuli framfærsluskyldu, hvað snertir afstöðu barna til foreldra sinna, eins og lagt er til. Ég hygg, að þetta þurfi rækilegrar athugunar við. Ég óska eftir að hafa samráð við hv. heilbr.- og félmn. um athugun og meðferð þessa máls. Ég vona, að mér gefist kostur á að kynna mér málið nánar fyrir þann tíma.