05.05.1947
Neðri deild: 121. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (3217)

158. mál, framfærslulög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins beina því til þeirrar hv. n., sem hefur þetta mál til athugunar, hvort ekki væri rétt að athuga betur 57. gr. frv. Í 1. málsgr. þeirrar gr. stendur „þá skal“, en mér skilst, að þetta muni fremur eiga að vera „þó skal“. Þessi gr. er um það, að ef hjón hafa komizt í sveitarskuld eða annað þeirra, meðan þau voru í hjónabandi, skal þeim skylt að endurgreiða hana, báðum fyrir annað og öðru fyrir bæði, og eins og stendur þarna: „þá skal, ef annað þeirra deyr og ekki er fé til þess að greiða skuldina, eigi hvíla á því eftirlifanda meira en helmingur sveitarskuldar þeirrar, sem þau þá voru í, og ekkert á ekkju, ef hún hefur einn eða fleiri skylduómaga.“ Mér skilst, að þarna eigi að vera „þó skal“.

Þá vildi ég í öðru lagi benda hv. n. á, að í bráðabirgðaákvæði, 1. tölul., stendur: „Í janúarmánuði 1947 skulu sveitarstjórnir o. s. frv.“ — Er það ekki óviðfelldið með frv., sem nú er verið að samþykkja í maí, að í því sé talað um skyldur sveitarstjórnar til þess að greiða eitthvað í jan. 1947? Mér sýnist ástæða til þess að breyta þessu, og vildi ég þess vegna skjóta því til hv. n., hvort það hafi verið ætlun hennar að hafa þetta þannig og hvort ekki væri rétt að leiðrétta þetta, áður en málið fer út úr hv. d.