11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

221. mál, bifreiðaskattur

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Mig langaði að gera nokkrar aths. Hv. 2. þm. Reykv. kom fram með þá uppástungu, sem hann þó eiginlega ekki virtist hafa hugsað sér að rökstyðja, hvað ynnist við það að þjóðnýta bæði bifreiðaviðgerðarverkstæði og taka upp aftur bifreiðaeinkasölu af ríkisins hálfu. En ég get fullvissað hv. 2. þm. Reykv. um það, að þeir munu vera fáir af þeim reyndu bifreiðastjórum í Reykjavík, sem mundu óska þess, að bifreiðaeinkasalan kæmist aftur á, eins og verðið og afgreiðslan var frá þeirri ríkisstofnun. Nú, þetta er það. sem ég vildi benda þeim hv. þm. á, sem aðhyllast þjóðnýtingu, því að það er eins og þeir átti sig aldrei þótt þeir brenni sig á fótum, því að það grær fljótt til þess að hlaupa út í ófæruna aftur.

Þá er það samverkamaður minn í bæjarstjórn, hv. 6. þm. Reykv. Þar er heilög vandlæting að öðru leytinu, en hræsnin uppmáluð að hinu. Við hlustuðum á þennan þm. mikið af nóttinni í nótt, og hann hefur ekki batnað við vökurnar. Í sambandi við ummæli hans um vinnubrögð mín eða annarra bæjarfulltrúa, sem eru ekki sama sinnis og hann í bæjarstjórn, vil ég láta hann vita, að ég er reiðubúinn að ræða við hann á þeim vettvangi og kjósendur okkar hér í þessum bæ, og mun ég líklega geta komið þar fram eins hnarreistur og hann þykist geta, þegar hann er aftur og aftur til málamynda að koma með uppástungur, sem eiga að túlka tilfinningar fólksins, en hv. þm. meinar ekki alltaf svo mikið með þeim, að manni finnst.

Ég skal svo ekki lengja umr. að þessu sinni. Hv. 6. þm. Reykv. talaði hér um málefni, sem kom þessu máli, sem hér liggur fyrir, ekkert við, þar sem hann talaði um vinnubrögðin í bæjarstjórn Reykjavikur, og fannst mér þá skylt að tilkynna honum, að ég væri reiðubúinn að tala við hann þannig.