22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (3230)

158. mál, framfærslulög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara. Eins og hv. frsm. tók fram, hefði ég kosið að gera mjög víðtækar breyt. á frv., sérstaklega við 62. gr., þar sem rætt er um viðurlög, ef sveitarstjórn er uppvís að því að flytja mann milli sveitarfélaga og halda honum þar uppi á sinn kostnað, til þess að hann geti orðið þar sveitlægur. Ég tel þessi ákvæði óþörf, síðan almannatryggingalögin voru sett. Sama gildir um 7. gr., um jöfnun framfærslukostnaðar. Ég tel, að allur kaflinn eigi að falla niður úr l. Hins vegar vil ég ekki tefja málið, því að það þarf að ná fram að ganga á þessu þingi. Ég treysti því líka, að hæstv. félmrh. láti athuga l. fyrir næsta Alþ. og felli úr þeim þau ákvæði, sem eru orðin úrelt og svo gömul, að þau heyra ekki lengur til nútímanum.