11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

221. mál, bifreiðaskattur

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram, að ég væri að öðru leytinu hræsnin uppmáluð, en að hinu leytinu fullur heilagrar vandlætingar. Þá hélt hann því einnig fram, að ég flytti till. mínar til þess að sýnast og meinti ekkert með þeim. Ég vildi biðja þennan hv. þm. að telja upp till., sem ég hef flutt hér á þingi og ekki meint neitt með. Þessi mikli röksemdamaður, sem hann telur sig vera, vildi ekki ræða við mig út af minni ræðu, sem ég flutti áðan, því að hún kæmi ekki þessu máli við. Einmitt það, hv. 3. 3. þm. Reykv. Kemur það ekki málinu við, hvort Reykjavíkurbær borgar þennan skatt af strætisvögnunum, sem lagt er til, að borgaður verði? Ég hef lagt til, að bærinn borgi það ekki. Kemur það ekki málinu við? Ég dró einnig í efa í ræðu minni, hvort réttmætt væri að ganga svo að gjaldþoli kaupstaðanna. t.d. atvinnubílstjóra, eins og lagt er til í frv. Ég sýndi fram á, hversu mjög það svipti bæjarfélög möguleikum til að leggja skatta á þessa menn og sýndi fram á, hve mikil útgjöld bæjarfélögum væru bökuð vegna vegaviðhalds og hve nauðsynlegt væri, að bærinn hafi tekjuöflun, og hvernig þetta frv. gengi í þá átt að rýra þessa möguleika. Kemur það ekki málinu við?