22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (3254)

247. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er aðeins til þess að lýsa ánægju minni yfir því, að þeir menn, sem að þessu frv. standa, sjá nú, að það er rétt að taka gjöldin til stéttarfélags sjómanna — þ. e. Landssambands íslenzkra útvegsmanna — og láta það sjálft ráða, hvernig það ver þeim. Það var sú tíð, að augu hv. þm. voru ekki opin fyrir þessu. Það var sú tíð í sambandi við búnaðarmálasjóðinn, að þá vildi Alþ. líka skipa fyrir, hvernig fénu skyldi varið. Nú hafa þeir séð, að bezt er, að þeir ráði sjálfir, hvað þeir gera við það, því að ekki er ymprað á að setja neinar slíkar fyrirskipanir gagnvart útvegsmönnum sem með búnaðarmálasjóðinn. Það er eftirtektarvert, hversu mikil breyt. hefur orðið á þessu á um það bil 2 árum, og ég vona, að þessir menn beiti nú áhrifum sínum við Nd. varðandi búnaðarmálasjóðinn, þegar þar að kemur. En þessi breyt. er mjög gleðileg, og vonandi stendur hún lengur en í kvöld.