11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

221. mál, bifreiðaskattur

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Það er að vísu æskilegt fyrir Reykjavíkurbæ að losna við, að þetta gjald yrði lagt á strætisvagnana, og einnig nokkur sanngirni í því, sem fram kemur hjá flm. till., að þetta gjald skuli ekki lagt á þessa tegund bíla, af því að þessir bílar annast svo að segja eingöngu ferðir innanbæjar, en eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, verða fleiri að bera þessi útgjöld en þeir, sem gott þykir, og þótt við höfum fullan hug á því að standa vörð um hagsmuni Reykjavíkurbæjar, þá ber okkur að setja hagsmuni þjóðfélagsins ofar kjördæmunum. Þetta frv. er borið fram af brýnni nauðsyn, eins og greinilega hefur komið fram hjá hæstv. ríkisstj. Ég verð þess vegna að vera á móti þessari brtt. og segi nei.