20.05.1947
Neðri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (3274)

172. mál, loðdýrarækt

Pétur Ottesen:

Meðal þeirra ákvæða, sem tekin eru upp í þetta frv., er það ákvæði í 7. gr., að loðdýraræktarráðunautur skuli annast eyðingu villiminka og annarra loðdýra, er sloppið hafa úr haldi, og er ráð fyrir því gert, að hann sé í samvinnu við sýslunefndir landsins um þessa starfsemi, eftir því sem ákveðið verður í reglugerð um þetta efni. Ég hefði gjarnan viljað óska eftir því, að hæstv. landbrh., sem á að fara með þessi mál, hefði getað verið viðstaddur, ef þess hefði verið kostur, því að ég vil í sambandi við þetta beina nokkrum ummælum til hans, en hann mun ekki vera hér, og verður þá við það að sitja.

Svoleiðis er, að minkafaraldurinn hér á landi er orðinn mesta plága, eins og kunnugt er. Þessi villidýr eru dreifð um alla landsbyggðina og eru farin að valda gífurlegu tjóni. Er nú svo komið, að hænsnastofni landsmanna er mikil hætta búin af völdum villiminka, því að þar sem þeir á annað borð komast í hænsnabú, þá láta þeir ekki staðar numið, fyrr en þeir hafa eytt öllu kviku, sem þar er inni. Þá hefur komið í ljós, að fuglalífi úti í náttúrunni stafar geysileg hætta af þessum skæðu rándýrum, sem herja á fuglinn um varptímann og hafa þá sérstaklega góða aðstöðu til að eyða honum. Er nú svo komið, að varplönd eru víða, þar sem þau eru ekki í eyjum, sem eru langt frá landi, undirlögð af þessari plágu, og sama er að segja um ýmsar aðrar fuglategundir, að þeim fækkar nú óðum af völdum þessara rándýra. Sama máli gegnir með fiskalíf í ám og vötnum, sérstaklega í lækjum, þar sem mikill silungur er, að þar er minkurinn ekki síður aðgangsharður, og gengur nú víða mjög á silungs- og laxastofn af þessum sökum, auk þess sem nú er farið að örla á því, að minkurinn ráðist á lömb, drepi þau og drekki úr þeim blóðið, eins og hann er vanur að gera við þau dýr og fugla, sem verða honum að bráð. Þannig stafar gífurleg hætta af þessum villidýrum. Á þetta var upphaflega bent af Guðmundi Bárðarsyni náttúrufræðingi. Hann gaf fullkomlega aðvörun, þegar farið var að flytja inn þessi dýr, og studdist þar við þá reynslu, sem hafði fengizt í öðrum löndum, að það mundi tæplega takast að halda þessum dýrum svo innan girðingar, að ekki slyppi eitthvað af þeim, og þá mundu þau hafa góð skilyrði til að lifa og tímgast úti í náttúrunni, eins og reynslan hefur fullkomlega sýnt. Hér á þingi hafa verið fluttar till. um að reyna að stemma á að ósi í þessu efni, en Alþingi hefur ekki viljað á það fallast.

Það er því mikil þörf, eins og nú er komið, þó að við megi búast, að það reynist erfitt, jafn mikil útbreiðsla og er orðin á þessum villidýrum og jafn mikill háski og reynslan hefur sýnt, að af þeim stafar í æ ríkari mæli, að gera ráðstafanir til að reyna að hefta þennan faraldur og leita eftir þeim aðgerðum í því efni, sem tiltækilegastar kynnu að reynast. Ég vil þess vegna með þessum orðum mínum vekja athygli hæstv. landbrh., sem kemur til með að gefa út reglugerð um starfssvið loðdýraræktarráðunautar um það, sem beinist að eyðingu villiminka, á því, að það verði ekki tekið neinum vettlingatökum á því máli, heldur gengið að því með festu og einbeitni að reyna að hamla upp á móti þeim háska, sem við okkur blasir sýnilega í þessu efni, og að þar yrði ekki neitt til sparað, því að þar er áreiðanlega mjög mikið í húfi, ef á að láta þennan faraldur vaða svo skefjalaust uppi sem gert hefur verið undanfarið um nokkurt árabil. Búast má við, að það verði ærið kostnaðarsamt fyrir ríkið að hafa þetta með höndum, því að sjálfsögðu verður það að bera uppi kostnaðinn af þessari starfsemi allri, en í það má ekki horfa, svo mikið sem hér er í húfi.

Ég vænti þess, að tekið verði á þessum málum með festu og einbeitni, svo að einhver árangur megi fást í þessu efni og takast megi að fækka þeim vargi, sem nú leikur lausum hala víðs vegar um land.

Í morgun hringdi til mín maður, sem hefur mjög orðið fyrir barðinu á þessum villiminkum. Spurðist hann fyrir um, hvað mundi verða gert í þessu efni, og sagði ég honum, eins og var, að það lægi fyrir till. um að hefjast nú handa um ráðstafanir hér að lútandi. Væntanlega verður það gert, því að eins og nú er komið, verður ekki lengur hægt að láta við svo búið sitja.