20.05.1947
Neðri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (3275)

172. mál, loðdýrarækt

Steindór Steindórsson:

Herra forseti. Það er ekki margt, sem ég þarf að segja, en vegna sérstöðu minnar hér, þar sem ég á að teljast bera ofurlítið skynbragð á náttúrufræði, þá vil ég undirstrika orð hv. þm. Borgf. um hættu af minkum. Ég hef frá því fyrsta verið sannfærður um, að það var kannske ekki eitt af stærstu óheillasporunum, en vissulega fullkomið óheillaspor, þegar leyft var að flytja inn minka, enda hefur komið í ljós, að þeir menn, sem vöruðu við því, hafa haft fullkomlega lög að mæla. Og þó að sú lýsing, sem hv. þm. Borgf. gaf, sé ófögur og kannske ekki orðið víða jafn vont ástand og hann lýsti, þá er þetta það, sem við fáum, ef svo heldur áfram eins og hingað til hefur verið. Ég harma það, eins og hv. þm. Borgf., að ekki er hægt að tala við hæstv. landbrh. um þessi efni, ef það gæti orðið til að herða á honum með ákvæði reglugerðarinnar, sem sett verður um varnir gegn minkum.

Það er náttúrufræðileg staðreynd, sem hvergi verður mótmælt, að hvar sem er í löndum, þar sem fáskrúðugt dýralíf er, að þegar ný tegund bætist við, þá er fyrir fram ómögulegt að segja, hvernig hún muni haga sér. Hún kemur í ókunnugt umhverfi, og þar vantar þá lögreglu, sem kynni að þurfa til að halda henni í skefjum. Hvar sem lokað landsvæði er, þar eru komin á föst hlutföll milli tegundanna, ein tegundin veður ekki uppi á annarrar kostnað, en þegar þeim hlutföllum er raskað, þá er aldrei hægt að sjá fyrir, hvað af því kann að leiða. Þessum hlutföllum hefur verið raskað hér á landi með innflutningi minka. Það er staðreynd, að hirðusemi Íslendinga er ekki meiri en svo, að það er aldrei svo um búið, að ekki sleppi meira og minna af þessum dýrum, og það er vissulega hættulegt, þegar þarna er um að ræða kykvendi, sem fjölgar geysilega ört og hefur hér óvenjulega góð lífsskilyrði. Þess vegna verður ekki nógsamlega brýnt fyrir þeim, sem um þessi mál eiga að fjalla, að gæta allra fyllstu varúðarreglna, og ég harma það, að hér skuli ekki beinlínis liggja fyrir frv. um að banna minkaeldi hér á landi, svo að mér gæfist tækifæri þá fáu daga, sem ég sit á þingi, til að greiða atkv. með því frv.