12.12.1946
Neðri deild: 36. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (3311)

102. mál, ríkisborgararéttur

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Ég talaði í þessu máli í gær hér í deildinni við 1. umr., en þá var frsm. allshn. ekki viðstaddur, og leyfi ég mér því að segja hér fáein orð aftur. Ég er sammála minni hl., að ekki eigi að útiloka menn, þótt erlendir séu, frá ríkisborgararétti, ef það eru góðir menn og hafa unnið með trúmennsku. Ég tel, að ekki eigi að gera hér neinn mannamun, en binda skuli slíka veitingu við ákveðin skilyrði. Í grg. minni hl. og í ræðu frsm. minni hl. er lagt til, að ákveðnir menn verði teknir inn í frv., sem flm. segist hafa haft persónuleg kynni af. Ég leyfi mér nú að efast um, hvort n. megi eða sé það leyfilegt að gefa út slíkt álit. Ég nefndi hér einn mann í gær, er heitir Volker Lindemann. Hann er nú búinn að dvelja hér í yfir 10 ár og teldi ég sjálfsagt að veita honum borgararétt. Ég hef síðar komizt á snoðir um mann nokkurn að nafni Jörgensen austur í Ölfusi. Hann hefur unnið hér á landi við smíðar eða eitthvað svoleiðis í um 16 ár. Í frv. er lagt til, að syni þessa manns verði veittur borgararéttur, og legg ég til, að hann verði látinn fylgja með. Ég ræði þetta ekki frekar nú við 1. umr., en beini til minni hl. n. að taka tillit til þessa og bera fram brtt. til 2. umr. um málið.