10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. um hækkun á innflutningsgjöldum árin 1947 er fram borið, eins og það ber með sér, til að auka tekjur ríkissjóðs og þá m.a. til að inna af hendi nauðsynlegar fjárgreiðslur til að halda niðri verðlagi í landinu. það er að sjálfsögðu aldrei ánægjulegt verkefni að bera fram eða flytja mál um auknar álögur eða skatta. En eins og fjárl. sýna, eins og þau voru afgr. við aðra umr., og þar sem að því er stefnt að afgr. þau rekstrarhallalaus, þá er nauðsynlegt að leita eftir leiðum til þess að jafna þann halla, ef unnt væri. Hér hefur verið hnigið að því að hækka vörumagnstoll og verðtoll, og í öðrum tveimur frv., sem ,lögð voru fram í Ed., var um að ræða hækkun á bifreiðaskatti og gjaldi af innlendum tollvörutegundum.

1. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, ákveður sem till. að innheimta vörumagnstoll af benzíni samkvæmt 27. kafla tollskrárl. 15. lið með 20 aurum af kg, en það hefur, eins og kunnugt er, verið 9 aurar.

Um þetta sérstaka gjald er það að segja, að það gegnir furðu, hvað lengi benzíntollurinn hefur verið svo lágur samanborið við þau gífurlegu útgjöld, sem því eru samfara að viðhalda vegunum, og samanborið við það, sem benzínskattur er í öðrum löndum, og það í nágrannalöndum okkar, Norðurlöndum og Englandi. Í Danmörku eru teknir 34 aurar af litra, í Noregi 18 aurar, í Englandi 22 aurar, en við höfum látið okkur nægja þá 9 aura, sem síðan 1932 a.m.k. hafa verið lögfestir sem benzínskattur hér.

Það hefði náttúrlega að sumu leyti mátt teljast gott að þurfa ekki að hækka benzínskattinn, ég segi að sumu leyti, vegna þess að það er ekki allur akstur, sem benzín þarf til, sem telst nauðsynlegur hlutur. Ég ætla. að flestir muni á það fallast, að okkur Íslendingum er ekki fært. sérstaklega með tilliti til útgjalda til vega, að hafa afgjald af benzíni svo lágt. Það mætti kannske segja, að hér væri fremur helzti skammt gengið en of langt hvað þetta snertir.

Í öðru lagi er lagt til hvað þennan vörumagnstoll snertir að innheimta hann framvegis með 200% álagi. en þegar ég segi framvegis, þá er þetta ekki nema fyrir árið. sem stendur, því að l. er ekki ætlað að gilda lengur, en til ársloka 1947, þó með þeim undantekningum, sem um er að ræða í 3. gr. og hv. þdm. munu hafa séð. en þar eru undan teknar nokkrar nauðsynjavörur auk þess sem undan teknar eru drykkjarvörur, þar með talið áfengi. vegna þess að um tekjuöflun á áfengi umfram það, sem var, hefur ríkisstj. gert aðrar ráðstafanir, eins og kunnugt er.

Vörumagnstollurinn er, ef svo mætti að orði kveða, nokkuð á eftir tímanum, hvað upphæð snertir, samanborið við ýmis önnur gjöld, því að það er sýnilegt, að þegar vörumagnstollurinn var lagður á, þá hefur það verið haft fyrir augum, að eitthvað svipað fengist inn fyrir hann og verðtollinn. Hlutfallið 1940 er nálægt 1/1. M.ö.o. tollurinn hefur gefið sömu fjárhæð og verðtollurinn, fyrst eftir að tollskrárl. komu til framkvæmda. En stórhækkandi verðlag á erlendum vörum og mjög hækkandi flutningsgjöld hafa raskað þessu hlutfalli, unz svo var komið, eins og segir í grg., að verðtollurinn var orðinn meira en ferfaldur vörumagnstollurinn. Í langflestum löndum er þungatollurinn 2–7 aurar á kg, þannig að miðað við það háa verðlag, sem nú er á erlendum varningi, má segja, að þessi tollur sé nú orðinn alveg hverfandi og að sú hækkun, sem hér er gert ráð fyrir, muni hafa tiltölulega litla verðhækkun í för með sér.

Vörumagnstollurinn nam s.l. ár alls 14.6 millj. kr., þar af tóbakstollur 5.861 þúsund kr. og áfengistollur 2.387 þúsund kr., eða samtals kr. 8.248 þúsund kr. Af öðrum vörum hefur því vörumagnstollur orðið 6,4 milljónir kr. Innflutningur hefur aldrei orðið meiri, en í fyrra og alveg víst, að hann verður mun minni á þessu ári, og er það út af fyrir sig alvarlegt íhugunarefni fyrir þá fjárhagsáætlun. sem byggir jafnmiklar tekjur á innfluttum vörum og gert er í okkar áætlun um fjárl.

Ég hef látið athuga það í stjórnarráðinu, hvað þessi hækkun ætti að geta numið, og er frá því skýrt í grg. við þetta frv. að því er snertir þessa hækkun á vörumagnstollinum út af fyrir sig.

Þá er enn fremur lagt til, að verðtollurinn verði innheimtur með 65% álagi, líka með undantekningum þeim hinum sömu, sem um ræðir í 3. gr., sem gildir fyrir hvorttveggja tollálagninguna. Verðtollurinn nam á síðasta ári rúmum 62 millj. kr., 131/2 millj. hærri en árið áður, og hefur hann aldrei verið svo hár fyrri. Stafar það auðvitað af því sama, að innflutningurinn var óvenjulega mikill s.l. ár. Nú er það víst, að tregða á gjaldeyrissviðinu og sparnaður á gjaldeyri hlýtur að verða til þess, að um stund dragi mikið úr innflutningi á vörum. Má því vel vera, að þótt hér sé gerð áætlun og gert nokkuð fyrir minnkun eða samdrætti á þessum tekjugreinum hvorri fyrir sig, að það sé ekki nógu mikið litið til þeirrar minnkunar og þar af leiðandi rýrni sá tekjuauki, sem hér er hafður fyrir augum. Þá þykir ekki ósennilegt, að heildarinnflutningsverðmætin verði 1/4 minni, en í fyrra og verðtollurinn þá álíka lægri, og ættu því 65% að hafa í för með sér allmikla tekjuhækkun, þegar miðað er við allt árið. Nú er frv. fyrst að koma fram, þegar nærri 1/3 ársins er liðinn, og verður því að gera fyrir því í útreikningnum, og hefur það verið gert. Að kunnugra manna áliti ætti hækkunin samkv. frv. miðað við allt árið, þegar tekið er tillit til hækkunar á benzíntolli, vörumagnstolli og verðtolli, að nema 42 millj. kr. En nú er sýnt, að ekki þarf að gera ráð fyrir, að þessi hækkun snerti annan innflutning en þann, sem nær yfir 9 mánuði ársins, svo að hér verður að draga 1/4 frá, eða 111,2 millj., þannig að þess er ekki að vænta, að tekjuhækkun á árinu nemi meiru en 31,6 millj. kr. af þessum þremur tollum, sem ég minntist á, en þeir eru benzíntollur, vörumagnstollur og verðtollur.

Það er náttúrlega ekki hægt að sigla fyrir það, eins og vísitalan er reiknuð út nú, að svona tollhækkanir hafi verðhækkun í för með sér, sem líka snertir vísitöluna. En meðan þeirri stefnu er haldið að reyna að stöðva áframhaldandi verðbólgu með niðurgreiðslu úr ríkissjóði, verður ekki hjá því komizt að auka tekjur ríkissjóðs í þessu skyni, og er mjög erfitt að stýra því svo, að það snerti hvergi vísitöluna. En þess ber að geta og gæta, að einmitt sú hækkun, sem kynni að verða á vísitölunni, að henni er ætlað að mæta m.a. með tekjum af þessum skatthækkunum eða tollhækkunum, og höfuðmarkmiðið með því öllu er að stemma stigu við því, að hækkunin á vísitölunni verði atvinnuvegum landsmanna ofjarl.

Ég vil sérstaklega benda á varðandi þessa tekjuöflunarleið, sem hér er fariðinn á, lengra en áður hefur verið, að í þessu frv., 6. gr., er ákveðið, að verðlagseftirlitinu sé óheimilt að leyfa álagningu á tollhækkun samkv. þessum l. Að því leyti til er því fram hjá því stefnt, að verðhækkun á nauðsynjavörum verði frekar, en orðið er fyrir atbeina þessarar löggjafar, ef að l. verður í því formi, að álagningin hækkar. Hún á ekki að gera það á sjálfan tollinn, en auðvitað verður hins vegar hin beina tollgreiðsla, sem innt er af hendi í þessu skyni til að fullnægja þessum l., að bætast við söluverð varanna. En að verzlanir megi leggja á sérálagningu á þá tollgreiðslu, til þess er ekki ætlazt.

Ég held, að ég hafi ekki frekar við þetta að bæta. Eins og kunnugt er, hafa verið hér til athugunar ýmsar leiðir, síðan þetta þing kom saman, til þess að ráða bót á ýmsum vandræðum, sem stafa af dýrtíðinni. og það er fjarri því, að ég sé að halda því fram, að hér sé verið með aðgerðir, sem komi að haldi til frambúðar, því að til þeirra aðgerða þarf miklu meiri átök innan þings og utan, sem vonandi verða gerð, áður en dýrtíðin og verðbólgan verður óviðráðanleg. En gagnvart þeirri e.t.v. eðlilegu gagnrýni, sem fram kynni að koma um það, í hvaða knérunn væri hér vegið, er þess að gæta, að álagning á verð vörunnar ýtir undir sparnað og góða meðferð vörunnar, og er sú nauðsyn undirstrikuð eða áherzla á hana lögð í hinu svo nefnda hagfræðingaáliti, á bls. 66. En þótt það væri ekki fyrir hendi, er hér um svo brýna nauðsyn að ræða, meðan ekki eru önnur úrræði fyrir hendi til að setja nokkrar tálmanir í veg fyrir óhæfilegan vöxt verðbólgunnar, en þau að mæta henni með niðurgreiðslu fjár úr ríkissjóði, þá ber að þeim brunni, að fjár þarf að afla til þessara hluta eins og til annarra, og vænti ég, að hv. þdm. sjái það og skilji eins vel og ég, sem nú mæli hér fyrir þessu máli, og sjálfsagt margir miklu betur.

Ég vil svo mælast til þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.