21.05.1947
Efri deild: 140. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (3353)

102. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Allshn. hefur átt allmarga fundi um þetta mál, og hefur að lokum komizt að þeirri niðurstöðu, sem þskj. 889 og 890 bera með sér. Það er um þetta mál að segja, að afgreiðsla þess í Nd. hefur verið með þeim hætti, að allshn. þeirrar hv. d. hefur fylgt þeirri reglu, að því er virðist, að mæla með þeim umsækjendum einum, sem eru af íslenzku bergi brotnir eða fæddir á Íslandi. Þetta virðist hafa verið sú meginregla, sem n. hefur farið eftir. En við afgreiðslu málsins í hv. Nd. komu fram brtt., sem röskuðu þessari reglu, þannig að nokkrir menn — ég man ekki hvað margir, frekar fáir —, sem sótt höfðu um íslenzkan ríkisborgararétt og hvorki voru af íslenzku bergi brotnir né fæddir á Íslandi, voru samþ. við meðferð málsins þar og gegn till. n. Það var því auðsætt, að ef átti að fylgja þeirri reglu, sem fylgt hafði verið við afgreiðslu málsins í Nd., þá varð ekki komizt hjá því að taka upp í n. þessarar d. önnur vinnubrögð, aðrar reglur um veitingu ríkisborgararéttar en n. hafði fylgt í hinni d. Og um þær reglur höfum við orðið sammála í aðalatriðum. Að vísu skrifaði einn nm. undir nál. með fyrirvara, sem hann þá gerir grein fyrir. Höfum við fylgt þeirri meginreglu að mæla með því, að þeim mönnum væri veittur ríkisborgararéttur, sem hafa dvalið hér á landi lengur en 10 ár og uppfylla að öðru leyti þau skilyrði, sem nauðsynleg eru talin til þess, að ríkisborgararéttur verði veittur. Þessir menn hafa flestir skilað til dómsmrn. gögnum, þ. á m. skýrslu um dvöl sína hér og ýmislegt fleira, og þessi gögn og þessar skýrslur bera það með sér, að þeir uppfylla þau skilyrði, sem gert er ráð fyrir, að þeir þurfi að uppfylla, sem ríkisborgararétt fá veittan, eftir að þeir hafa dvalið hér í 10 ár, samkv. l. um veitingu ríkisborgararéttar. Og um flesta þessa menn, sem n. mælir með á þskj. 890, gildir sú regla, að dómsmrn. hefur mælt með því, að þeim verði veittur ríkisborgararéttur. Þó eru undantekningar frá þessu, þar sem einstakir umsækjendur hafa sent umsóknir sínar beint til n., og þegar svo hefur staðið á, að þeir hafa dvalið hér lengur en 10 ár, og þar sem gögn þeirra eru í lagi, þá hefur n. í flestum tilfellum fallizt á að veita þeim ríkisborgararétt.

Þetta eru þá þær meginreglur, sem n. hefur farið eftir. Og fyrst horfið er frá þeirri reglu að veita þeim einum ríkisborgararétt, sem fæddir eru á Íslandi eða af íslenzku ætterni, þá er ekki auðvelt að taka upp aðra reglu en þá, sem við höfum gert við afgreiðslu málsins í n. Annars ber að taka það fram, að ég tel, að það sé dálítið varhugaverð afgreiðsla, sem þessi mál fá nú í seinni tíð hér á Alþ. Það var áður, að þeir, sem sóttu um íslenzkan ríkisborgararétt, sendu gögn sín til dómsmrn. og það hafði síðan, eftir að þessar umsóknir og þau gögn, sem fylgja þurftu, höfðu legið fyrir, samið frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar, sem síðan var lagt fyrir Alþ. sem stjfrv. Nú á seinni árum hefur verið horfið frá þeirri reglu, og ég álít það miður farið, því þegar frá henni er horfið, þá leiðir af því það, að sumt af umsóknunum kemur með meðmælum frá dómsmrn., en aðrar eru sendar beint til þingsins og til þeirrar n., sem er að starfa í þessu máli í annarri hvorri d. Þetta er afgreiðsla, sem ég álít, að eigi að hætta við, og ætti að taka upp þá meginreglu, að þeir, sem um íslenzkan ríkisborgararétt ætla að sækja, sendi umsóknir sínar og gögn fyrir vissan tíma, til þess að hlutaðeigandi ríkisstj. hafi tíma til að ganga frá frv. um málið og senda það frá sér sem stjfrv., og engar aðrar umsóknir verði teknar til greina en þær, sem koma fyrir þann vissa tíma.

Ýmsar af umsóknunum uppfylltu ekki skilyrðin. Í sumum voru ekki nægilegar upplýsingar, þ. á m. í umsóknum manna, sem eðlilegt virðist, að veittur sé ríkisborgararéttur, ef þau gögn, sem lögboðin eru, hefðu fylgt. N. fór þess vegna þá leið að senda allar umsóknirnar til dómsmrn., og það tilkynnti umsækjendum, að gögnin vantaði, og ef þeir legðu áherzlu á að framfylgja umsóknunum, þá kæmu þessar umsóknir aftur nú eða á næsta þingi með fullnægjandi gögnum.

Ég hef ekki mörgu við þetta að bæta, sem ég hef sagt. Ég geri ráð fyrir, að svo kunni að fara, að einhver hafi við afgreiðslu n. að athuga, og gefst mér þá tækifæri til að svara því, eftir því sem hægt er. En sem sagt, n. telur rétt, að þeirri meginreglu, sem sett er í íslenzkum l., verði fylgt, að þeir, sem dvalið hafa hér á landi í 10 ár eða lengur og uppfylla öll skilyrði, sem lög ætlast til, að þeir fái ríkisborgararétt, ef ekki er hægt að færa sérstakar ástæður fyrir því, að þeim skuli ekki veittur sá réttur.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um málið meir á þessu stigi.