22.05.1947
Neðri deild: 140. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (3361)

102. mál, ríkisborgararéttur

Finnur Jónsson:

Ég sé, að Ed. hefur allmikið brugðið út af þeirri reglu, sem meiri hl. allshn. Nd. tók upp við meðferð málsins í þessari d. Ég vil ekki gera um það ágreining eða vekja upp þær umr., sem þá urðu, þó að full ástæða væri til fyrir Alþ. að taka nokkuð til athugunar, hvort ekki þyrfti að setja nýjar reglur, eitthvað strangari en nú gilda, um veitingu ríkisborgararéttar með tilliti til þess mikla aðstreymis, sem nú er til landsins af útlendingum, þar sem nú eru hér að staðaldri um 3 þús. erlendir ríkisborgarar.

Í öðru lagi vil ég leyfa mér að benda á, að viðvíkjandi 21. lið, Róbert Jack, liggur fyrir bréf á skrifstofu Alþingis, dags. 27. sept. 1946, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta : Vegna ófyrirsjáanlegra ástæðna óska ég þess, að Alþingi fresti veitingu á íslenzkum ríkisborgararétti handa mér þangað til seinna.

Róbert Jack.

Ég veit ekki, hvort það er ástæða fyrir Alþ. að vera svo örlátt í veitingu ríkisborgararéttar að þröngva honum upp á þá, sem ekki óska þess. Ef til vill liggja fyrir einhver nýrri gögn í þessu máli, en þau eru ekki finnanleg í skjölum þessa manns. Það er síður en svo, að ég vilji hafa nokkuð á móti því að veita viðkomandi manni ríkisborgararétt, en ég tel þó rétt, áður en þessi d. gengur frá málinu, að það liggi fyrir, hvort eitthvað nýtt hefur komið fram, sem geri það að verkum, að viðkomandi óski ekki lengur eftir, að frestað sé að veita honum íslenzkan ríkisborgararétt.

(GSv: Er ekki ósk hans fullnægt frá því í september?) Það má vera, en ég fyrir mitt leyti get ekki greitt atkv. um þetta mál, fyrr en fyrir liggja eitthvað nánari upplýsingar en hér liggja fyrir. Ég tel, að það hafi ekki komið neitt annað frá umsækjanda en hér liggur fyrir, og þá álít ég, að ekki sé viðeigandi að setja hann inn í frv., sem byrjar svo: „Ríkisborgararétt skulu öðlast“. Ég vil ekki, að gengið sé frá þessu, fyrr en vitað er, hvort nokkuð annað liggur fyrir í þessu máli. Ég veit, að skrifstofan hefur ekki fengið annað, en hún vakti athygli á þessu, að beiðnin hefur verið afturkölluð. Ég vil, að það sé haft samráð við hv. frsm. málsins í Ed. og vitað, hvernig í þessu máli liggur.