22.05.1947
Neðri deild: 140. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (3362)

102. mál, ríkisborgararéttur

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Það er að vísu rétt, að þetta bréf liggur fyrir frá settum presti austur á landi, nú presti í Grímsey. Það má vera, að honum hafi ekki verið mikið áhugamál, þegar hann getur þjónað embætti, hvort hann hefur ríkisborgararétt eða ekki. Þetta bréf var lesið og í það vitnað á fyrra ári, og þá var þess getið við nm. og sjálfsagt hv. frsm., að það væri einfalt ráð til að fylgjast með þessu. Það var ekkert annað en hv. frsm. vildi ómaka sig að spyrja um þetta á biskupsskrifstofunni, hvort þessi þjónn kirkjunnar vilji ekki íslenzkan ríkisborgararétt. Ef svo er, þá er ekki um neitt að sakast, og þá mætti fella þetta úr, þó að ég telji vafa, að það beri að breyta frv., eins og Ed. hefur gengið frá því, því að það er virkilega svo, að — fjöldi fólks hefur mikinn áhuga fyrir, að þessir menn gætu fengið ríkisborgararétt nú. Ég tel þetta ekki svo mikils vert, þegar það er upplýst, að þessi maður, sem ætlaði sér burt, er nú kominn í annað embætti norður í Grímsey. Ég tel þetta aukaatriði, ef til vill er það fyrir misskilning hjá þessum framandi manni. Ég vildi því leggja til, að séð yrði yfir þetta og látið við það sitja, sem Ed. hefur gert, en gera ekkert það, sem gæti orðið til þess, að málið kynni að daga uppi, því að það er mikið í húfi fyrir allan þorra þeirra, sem nú eiga að öðlast ríkisborgararétt.