16.10.1946
Neðri deild: 4. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (3403)

8. mál, fiskimálasjóður

Flm. (Eysteinn Jónsson) :

Gert er ráð fyrir, að þetta frv. komi í stað gildandi laga um fiskimálasjóð og þar að lútandi. Miklar breytingar felast í þessu frv., og skal ég rekja þær helztu. Í fyrsta lagi er ráðgert, að ríkissjóður leggi til fiskimálasjóðs 1½ milljón króna á næstu 10 árum. Í öðru lagi, að ríkisstj. sé heimilt að taka allt að 10 millj. króna lán til eflingar sjóðnum. Ef þetta nær fram að ganga, þrefaldast næstum tekjur sjóðsins og eykst hann þó enn meira, ef lánsheimildin er notuð. Ég flutti frv. um sama efni á síðasta þingi, en það var fellt. Var því haldið fram, að ekki væri hægt að efla fiskimálasjóð vegna stofnlánadeildarinnar. Þó að þessi deild sé góð, er ekki þess vegna hægt að ganga fram hjá fiskimálasjóði. Stofnlánadeildin lánar 2/3 út á vélbáta, en meira út á vinnslustöðvar, en 3/4, ef ríkisábyrgð er fyrir hendi. Hefur deildin þar fyrir utan enga aðra starfsemi. Augljóst er, að fjármagn þarf í fleira en það, sem stofnlánadeildin lánar út á. Því er gert ráð fyrir, að fiskimálasjóður vinni framvegis við hlið stofnlánadeildarinnar og að öðrum verkefnum og veiti styrk umfram stofnlán, t. d. til rannsóknarstarfa og nýjunga, sem þannig eru vaxnar, að lánsstofnanir geta ekki lánað til þeirra á byrjunarstigi. Ég held því, að þetta sé að sumu leyti óskylt stofnlánadeildinni og heppilegt, að starfsemin sé í tvennu lagi, annars vegar stofnlánadeild, en hina vegar fiskimálasjóður, sem veiti styrk til tilraunastarfsemi, en þá þarf að auka fiskimálasjóð.

Keypt hafa verið inn í landið mörg skip og bátar, en mörg önnur verkefni eru óleyst, sem nú þarf nauðsynlega að vinna að. Má þar nefna leit að fiskimiðum, og geta einstaklingar ekki lagt fram fé í því skyni, enn fremur nýjar og betri veiðiaðferðir, og hafa einstaklingar nokkuð gert í því efni, og er eðlilegt, að það sé stutt af ríkinu. Erfiðleikar eru á að veiða helztu nytjafiska okkar, þorskinn og síldina, og erfitt mun úr því að bæta, en að því ber að starfa og styrkja þá starfsemi með auknum fjárframlögum. Hvað viðvíkur meðferð og verkun sjávarafurða, þurfum við fljótari aðferðir. Má í því sambandi minna á, að saltfiskverkun var hér mikil fyrir stríð. Ef við nú aftur þurfum að verka í salt, er það ógerlegt með sömu aðferðum og fyrir stríð, og þarf að leita nýjunga í saltfiskverkun. Mér finnst þessu máli hafi verið of lítið sinnt, því að ekki er síður nauðsyn á nýjum aðferðum við fiskverkun en veiðiaðferðum og sífellt þarf að finna upp nýjar aðferðir til að gera fiskinn að söluvöru, t. d. með niðursuðu, reykingu o. fl. en allt kostar þetta dýrar tilraunir, sem einstaklingum er um megn að gera. Þá er og nauðsynlegt að hefja markaðsleitir fyrir sjávarafurðir okkar. Að vísu hefur nokkuð verið gert í því skyni, en framkvæmdirnar hafa verið í molum og allt of litlar, enda gert ráð fyrir í þessu frv., að fiskimálasjóður veiti stuðning við öflun nýrra markaða fyrir sjávarafurðir. Nauðsynlegt er einnig að veita styrk til bátakaupa umfram það, sem stofnlánadeildin og bankarnir veita, því að enda þótt allmargir hafi getað keypt báta undanfarið, er ekki allt hreint eða ljóst með þau kaup, og ganga þrálátar sögur um, að kaupin séu ófullger. Margir hafa eignazt. allgóða báta, en í smáþorpunum var ástandið þannig, að menn höfðu ekki fé til að kaupa stóra báta, og ástandið er enn svo, að ekkert gerist til bóta. Ég held, að ástandið sé sums staðar svo alvarlegt, að útgerð leggist alveg niður, ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir til úrbóta. Þetta vandamál leysist kannske að nokkru vegna verðfalls á allgóðum, notuðum bátum, en þó aldrei að öllu leyti, og tel ég því, að fiskimálasjóður eigi að veita sérstakan styrk til bátakaupa á þessum stöðum.

Þá vil ég benda á, að í frv. felst auk þessa, er áður er talið, tvö önnur nýmæli. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að félögum sé ætlaður forgangsréttur til að fá styrk, þar sem heppilegt er talið, að samvinna sé meðal útgerðarmanna um sjávarútvegsmál. Félögum er aðeins ætlaður forgangsréttur, en með því eru einstaklingar ekki útilokaðir frá því að fá styrk, en Fiskifélag Íslands leiti fyrir sér um félagsstofnanir, áður en styrkur er veittur. Sé þá ekki vilji fyrir hendi til að stofna slík félög, er heimilt að lána einstaklingum. Loks er ákvæði um, að fiskimálanefnd skuli lögð niður, en fiskifélagið taki forustuna í þeim málum, er hún áður fjallaði um, og að stjórn fiskimálasjóðs sé skipuð 5 mönnum til að ákveða fjárveitingar, er fiskimálanefnd áður stjórnaði og ráðherra hafði úrslitavaldið í. Ég ætla ekki að tefja með lengri framsöguræðu, en leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til sjútvn.