22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (3422)

8. mál, fiskimálasjóður

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Út af ummælum hv. 6. landsk. og hv. þm. N-Þ. í sambandi við fyrri brtt. á þskj. 976 get ég ekki fallizt á þau rök, sem hafa verið borin fram frá þeirra hendi, bæði í d. og eins í n. Það er alveg jafnmikið undir fjárveitingavaldinu komið á hverjum tíma, hvort orðalagið sem viðhaft er. Ef fjárhagurinn er þannig, að ekki er hægt að láta þessar 500 þús. kr., sem á að gera samkv. 3. tölul. 2. gr. á þskj. 865, þá hefur fjárveitingavaldið nákvæmlega sama vald til að breyta sjálfum l. Ég hef alltaf talið það mjög hæpið að binda í lögum stórar upphæðir, hvort sem fé er fyrir hendi eða ekki í ríkisféhirzlunni, nema því aðeins, að séð sé fyrir því samtímis, hvernig féð eigi að koma, eins og gert er í 2. lið. Það er alveg ákveðinn tekjustofn, og gjaldið skal renna inn, hvernig sem fjárhagur ríkisins er að öðru leyti. Hitt er bara dauður bókstafur að ákveða, að ríkið geri eitthvað, hvort sem það getur það eða ekki. Valdið liggur hjá þinginu að gera þetta, ef nauðsyn krefur, áður en fjárlög eru gefin út. Enda kom fram hjá hv. þm., að alltaf mætti setja „bandorma“ aftan í, ef nauðsyn krefði. Ég legg því til, að breyt. þessi verði gerð. Það er bezt, að vilji þingsins sjáist fyrir því, að leggja skuli fram ekki aðeins 500 þúsundir, heldur eina milljón, ef möguleikar eru fyrir á hverjum tíma í ríkisféhirzlunni.

Ég gleymdi að geta þess, að 2. brtt. er bráðabirgðaákvæði. Er þar gert ráð fyrir, að kosning gildi til ársloka 1950. Er þetta gert samkv. leiðbeiningu skrifstofustjóra Alþingis.