22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (3423)

8. mál, fiskimálasjóður

Björn Kristjánsson:

Hv. frsm. sagði, að hægt væri að breyta þessum l. og fella niður þetta tillag, þó að það sé sett inn í lögin nú. Rétt er það, að Alþ. hefur á hverjum tíma rétt til að breyta hvaða l. sem er. En hinu verður ekki neitað, að það liggur ekki eins laust fyrir að lækka tillagið, ef upphæðin stendur í l. Meðan hún stendur í l., er það skylda að leggja hana fram. Hv. frsm. sagði, að ég hefði haldið því mjög fram í n., að alltaf væri hægt að setja „bandorm“. Ég vil ekki kannast við, að ég hafi haldið því mjög fram. Þá sagði hann, að ekkert vit væri að binda ríkissjóði þennan bagga án þess að sjá fyrir tekjum á móti. Ég viðurkenni það sjónarmið. En ég vil halda fram, að það sé búið að gera þetta svo oft, að það muni minnstu um þessar 500 þús. kr. til svo þýðingarmikils málefnis. Út frá þessu var það, að ég skaut því fram í n., að ef eitthvert neyðarárferði væri fjárhagslega séð, væri alltaf möguleiki til að gera þetta. En ekki hélt ég þessu mjög fram. Þegar hin mikla fjárhagskreppa gekk yfir eftir 1930, voru sett ákvæði í sérstökum l. um að fella niður skyldu ríkissjóðs til ýmissa framkvæmda, til byggingar- og landnámssjóðs o. fl. Það geta alltaf komið þeir tímar, að þetta sé óhjákvæmilegt, engin ráð til að fullnægja kröfum um greiðslur ríkissjóðs samkv. l. En það verður ekki gert nema á mjög alvarlegum tímum.