19.12.1946
Neðri deild: 41. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (3433)

120. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Frsm. (Hallgrímur Benediktsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 231, um framlenging á gildi laga nr. 33 7. maí 1928, um skattgreiðslu h/f Eimskipafélags Íslands, er flutt af meiri hl. fjhn. Eins og hv. d. sér, er mál þetta gamall gestur og hefur verið flutt allt frá því 1928, þó með nokkrum breyt. og þá sérstaklega frá 1944. Grg., sem fylgir þessu frv., er mjög stutt, en skýr og augljós öllum. Hvað efnishlið málsins snertir, þá er það þannig með þetta fyrirtæki, að öllu því, sem því hefur áskotnazt, er raunar aftur varið til samgöngumála. Félagið hefur alltaf leitazt við að fara svo eftir óskum og þörfum þjóðarinnar í einu og öllu sem frekast hefur verið kostur. Eins og ég tók fram áðan og frv. ber með sér, er það flutt af meiri hl. fjhn., en aðrir nm. munu auðvitað við síðari umr. eða þegar n. tekur þetta frekar til athugunar, koma fram með sína grg. eða álit.

Að svo komnu máli álít ég ekki þörf á að hafa lengri framsögu með þessu frv., en mælist til að það gangi sína leið til 2. umr. og eins og leið liggur til afgreiðslu hjá hv. d.