12.05.1947
Neðri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (3443)

120. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. þetta, sem flutt er af meiri hl. fjhn., er um það að framlengja til ársloka 1948 þau lög, sem í gildi hafa verið um alllangan tíma um skattgreiðslu Eimskipafélags Íslands. Síðan þetta frv. var til 1. umr. hefur það ekki verið athugað nánar í fjhn. Ég hafði hugsað mér að hreyfa brtt. við frv., en þar sem það hefur ekki verið rætt frekar í n., þá mun ég flytja skrifl. brtt., með leyfi hæstv. forseta: Við 1. gr. bætist ný málsgr. svo hljóðandi: Ákvæði laga þessara um skatt- og útsvarsgreiðslu skulu einnig gilda fyrir útgerð flutningaskipa í eigu Sambands íslenzkra samvinnufélaga eða sambandsfélaga þess, enda verði útgerð skipanna reikningslega aðgreind frá öðrum rekstri félaganna. Við fyrirsögn frv. bætist: o. fl. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur Samband ísl. samvinnufélaga fest kaup á skipi, sem verða mun eitt stærsta skipið í ísl. skipaflotanum, og hefur félagið í hyggju að eignast fleiri skip. Þetta er alþjóðarfélagsskapur á sama hátt og Eimskipafélagið og því ekki nema sanngjarnt, að eins verði hagað til um skattgreiðslu hjá báðum félögunum.

Ég vænti þess, að hv. þm. geti fallizt á þetta, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum. um þessar brtt. mínar.