12.05.1947
Neðri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (3445)

120. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Frsm. (Hallgrímur Benediktsson) :

Herra forseti. Ég vildi segja hér nokkur orð í sambandi við brtt. þá, sem hv. þm. V-Húnv. bar hér fram skriflega, vegna þess skattfrelsis, sem Eimskipafélagið hefur notið. Mér skildist, að hv. þm. vildi rugla hér saman skipum samvinnufélaganna, sem þó er ekki nema eitt, og virðist mér það horfa allt öðruvísi við. Ég vildi leyfa mér að víkja nokkrum orðum að því, hvernig þessu hefur verið háttað frá byrjun. Eimskipafélagið hefur notið frá 4. júní 1924 undanþágu frá greiðslu tekju- og eignarskatts. Þetta gilti til ársins 1928, en síðan hefur þessi undanþága alltaf verið framlengd. Í maí 1928 var félagið þegið undan skattgreiðslu árin 1929–1930 gegn því, að það greiddi ekki hærri arð til hluthafa en 4% á sama tíma og að það veitti samkv. úthlutun menntamálaráðs 60 mönnum á ári hverju ókeypis far til útlanda og heim aftur. M. ö. o. þessi kvöð, að ekki mætti greiða hærri arð en 4% til hluthafa er frá árinu 1928. Allir flokkar hafa verið sammála um að framlengja þessar skattaívilnanir, sem félagið hefur notið.

Eins og kunnugt er, á félagið að greiða í stað útsvars 5% af nettóágóða, þar sem það hefur aðalaðsetur sitt. Tala hluthafa er tæp 14000 og öll hlutafjárupphæðin nemur 1680750 kr., þar af eiga Vestur-Íslendingar 66 þús. kr. en ríkissjóður 100 þús. kr.

Um leið og stríðið hætti, hóf Eimskipafélagið siglingar til allra þeirra landa, sem áður var siglt til Norðurlandanna, Englands, Belgíu, Frakklands, Rússlands og Ameríku, en þangað hafa skip félagsins siglt öll stríðsárin. Samvinna félagsins við hið opinbera hefur alltaf verið góð, og vegna hlutafjáreignar ríkissjóðs á ríkið 1 mann í stjórn félagsins — og auk þess einn endurskoðanda. Félagið hefur annazt strandferðirnar að miklu leyti síðan árið 1916, en hefur löngum tapað á þeim. Þó hefur það hagnazt um það bil 30 millj. kr., og hefur því fé verið varið til þess að bæta skipakostinn og samgöngurnar yfirleitt. Matvörur, fóðurvörur og áburð hefur félagið flutt fyrir svo lágt verð, að það hefur valdið því milljónatapi.

Í framhaldi af þessu lauslega yfirliti má geta þess, að viðkomustöðum skipa félagsins fer sífellt fjölgandi. Árið 1945 voru þeir 232, en árið 1946 voru þeir 321. Ég þarf ekki að taka það fram, að það hefur verið ákaflega mikið magn, sem flutt hefur verið með skipum félagsins.

Það, sem ég vildi benda á í sambandi við till. hv. þm. V-Húnv., er það, að á þessu stigi málsins býst ég varla við, að Samband ísl. samvinnufélaga vilji taka á sig þær kvaðir að binda sitt eina skip við 2–3 hafnir í ferð. Og ég býst tæplega við, að fyrir hendi sé yfirlýsing frá samvinnufélögunum um þetta efni né hitt, að ekki megi borga nema ákveðinn arð til hlutafjáreigenda. Það er skoðun mín, að ef samvinnufélögin á þessu stigi málsins fara fram á skattfrelsi vegna þessa eina skips síns og þeim verður veitt það, þá er hætt við, að fleiri komi á eftir og heimti slíkt hið sama, auk þess sem — eins og ég hef áður sýnt fram á — Eimskipafélagið hefur tekið á sig svo miklar kvaðir gegn þessum skattaívilnunum, að ég sé ekki, að hægt væri að leggja þær á þetta eina skip samvinnufélaganna. Ég vildi bæta því hér við í sambandi við rekstur Eimskipafélagsins, að það hafði um skeið nokkurn framkvæmdastyrk, en hann kom ekkert upp í kostnaðinn, svo að hann var felldur niður. Það hefur heldur ekki verið farið fram á strandferðastyrk, þó að félagið stórtapaði á siglingum sínum til hinna smærri hafna úti um land, en það hefur alltaf verið áhugamál félagsins að vera landsmönnum að sem mestu liði og efla samgöngurnar einnig til hinna afskekktu hafna, og mér er óhætt að fullyrða, að það er áhugi og vilji félagsins að hafa sem nánasta samvinnu við alla aðila um samgöngur og samgöngubætur.

Ég vildi beina þeirri spurningu til hv. þm. V-Húnv., hvort hann vilji ekki taka till. sínar aftur við 3. umr. Ég vona, að 2. umr. sé þá lokið, því að ég tek þessar till. hv. þm. alls ekki svo, að hann sé á móti skattfrelsi Eimskipafélagsins, og vona ég, að hann sjái, að till. hans geta ekki komið til mála á þessu stigi málsins.