10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Mér finnst, að þær umr., sem hér hafa farið fram, hafi fallið í dálítið einkennilegan farveg hjá þeim, sem aðallega hafa talað á móti frv. Hæstv. fjmrh. hefur lýst yfir, að þetta frv. sé eitt af þeim frv., sem fram munu koma af brýnni nauðsyn, en ekki, að það sé nein veruleg lausn á dýrtíðarmálinu, þó að það verði samþ.

Þar sem þessar umr. hafa mjög snúizt um verzlunarstéttina sem slíka, get ég ekki komizt hjá því að koma nokkru gerr að því, ef á að taka þessi ummæli á þann veg, sem þau hafa sögð verið. Vil ég aðeins með nokkrum orðum benda á, að ég tel ákveðið, að kaupsýslustéttin í þessu landi hafi innt mikið verk af höndum og fullkomlega sambærilegt við verk verzlunarstétta hverra annarra þjóða. Mér þykir það því koma einkennilega fyrir nú, þegar ófriðnum er lokið, að þá er, eins og oft er gert jafnvel við góðan verkamann, að við hann er sagt: Ja, nú hef ég ekki lengur not af þér. — þá er nú talað um þessa stétt rétt eins og einhverja óþarfa stétt í þjóðfélaginu. Allir muna, að í byrjun ófriðarins var það eitthvert allra alvarlegasta málefni allra þjóða, hvernig þær næðu nauðsynjavörum til lands síns. Þá var undir eins í stríðsbyrjun verzlunarstétt þessa lands boðin og búin til þess að leggja krafta sína fram og vann að því öll ófriðarárin, hvernig sem á stóð, að afla nauðsynja til landsins, m.a. með því að fara í hættusöm ferðalög, til þess að leysa þessa þjónustu af hendi, sem henni bar skylda til. — Enn fremur er það einkennilegt í sambandi við þetta, að það skuli vera sumum mönnum sérstakt kappsmál nú, árið 1947, að útrýma þeirri verzlunarstétt, sem eftir aldamótin síðustu náði fyrir alveg ákveðin átök flestum og beztum verzlunarsamböndum í hverju viðskiptalandi, eftir því sem bezt hentaði á hverjum tíma. Þetta er náttúrlega lífsins gangur, að maður sleppur ekki við vanþakklæti, og að margur hyggur auð í annars garði. Og svo er nú komið, að sumum mönnum finnst eiginlega ekkert ríkidæmi vera í þessu landi nema hjá einni stétt, engin stétt hafi eiginlega komizt vel af nema kaupsýslustéttin. En það merkilega skeður, að þessari stétt er þó skipt í tvo flokka. og þetta á aðeins að vera hjá heildsalastéttinni, þetta ríkidæmi. En ef við tökum heildsalana sem slíka, sem jöfnum höndum bjóða vörur sínar til kaupfélaga og neytendafélaga og til kaupmanna, þá finnst mér hér vera gerð tilraun til að rugla saman og villa mönnum sýn. Og mig furðar á því, að það skuli koma fram hjá reyndum þm., sem raun hefur borið vitni við umr. hér í dag. Það var sérstaklega ræða hv. 6. þm. Reykv., sem kom illa við mig í þessu efni, hvernig hann talaði um þessi mál. Það virtist ganga eins og rauður þráður gegnum ræður þessa hv. þm., og reyndar annarra hv. þm. Sósfl., sem hafa talað, að frv., sem hér liggur fyrir, sé ranglátt og þýðingarlaust, þar sem ekkert vært með því tekið af þeim ríku. Og það var eingöngu sett í samband við það, hvar ætti að grafa upp þá ríku í þjóðfélaginu. Það er eins og það sé einhver þjóðarógæfa, að til skuli vera enn bjargálna menn hér á þessu landi. En þetta er svo sem engin ný bóla hjá þessum hv. þm., 6. þm. Reykv., eða þm. sósíalista yfirleitt. Viðkvæðið er alltaf hið sama: Það þarf að taka af þeim ríku. (Sigfs: Þetta er alveg hárrétt). En það hefur allt of mikið verið farið eftir þessum orðum, og vil ég færa þeim orðum mínum stað. Skattálögur eru nú þegar orðnar allt of miklar. Og í þessu sambandi vil ég spyrja hv. sósíalista: Hvað eru ríkir menn? Er sjómaðurinn ríkur, sem minnzt var á hér í ræðu í dag, að teldi þýðingarlaust að vinna stöðugt allt árið, vegna þess að allt, sem hann mundi vinna sér inn fram yfir visst hámark, færi í skatta? Hvað þurfa menn að hafa í tekjur eða eiga til þess að teljast ríkir á máli hv. 6. þm. Reykv.? Hvar á að draga mörkin á milli ríkra og fátækra? Ég er alveg á öndverðum meið við hv. þm. Sósfl. um skattálagninguna. Ég tel, að þegar hafi verið of langt gengið í skattálagningu. Skattstiginn á ekki að vera þannig úr garði gerður, að hann verki á menn þannig, að menn auki ekki tekjur sínar með því að nýta starfskraftana til fullnustu. Það álit ég vera mjög hættulegt, ef það ástand skapast. Og í raun og veru ber hæstv. Alþ. í náinni framtíð að taka skattal. til ýtarlegrar endurskoðunar með það fyrir augum að lækka skattálögur hjá landsmönnum til muna. Lækkaðar skattálögur mundu hafa víðtæk og mjög margvísleg áhrif á allt athafnalíf landsmanna. Og lækkandi álögur mundu verða sterkasti liðurinn til þess að tryggja nýsköpun þá, sem sósíalistar hafa lýst sig hingað til mjög fylgjandi. En með áróðri sínum um hækkaða skatta er hv. 6. þm. Reykv. að reyna að hindra eðlilega nýsköpun á sviði atvinnuveganna og þar með — svo að maður noti orð hv. 6. þm. Reykv. sjálfs — að stela brauðmolum úr munni íslenzkra barna. Mér fannst þetta orðalag ákaflega óþinglegt, og ég tek nærri mér að nota það. En af því að þessi reyndi og fágaði ræðumaður, eins og hv. 6. þm. Reykv. telur sig nú vera, gat notað þetta orðalag, þá hafði ég þetta gullkorn eftir honum. — Nei, það er ekki vináttunni eða hollustunni í garð nýsköpunarinnar fyrir að fara hjá þessum hv. þm. En þrátt fyrir það má sjá, hvert þeir ætla sér. Þeir ætla að þrautpína íslenzku þjóðina og atvinnulífið með auknum sköttum, þannig að íslenzkir atvinnurekendur séu ekki þess megnugir að halda uppi atvinnulífi í landinu. Þá vilja þeir koma helzt öllu í ríkisrekstur. En er það nokkur furða, þótt einstaklingsfyrirtæki séu ómegnug að halda uppi atvinnulífi í landinu, eftir síhækkaðar álögur ríkisvaldsins? Sósíalistar ætla að svíkjast aftan að atvinnulífinu í landinu og koma því á vonarvöl. En er þetta að berjast fyrir alþýðuna í landinu og hagsmunum almennings? Mér er spurn. Nei og aftur nei. Sósíalistar sýna með þessari framkomu sinni, hvern óvin íslenzkur almenningur í raun og veru á þar, sem þeir fara.

Nú mun einhver segja, að það sé eðlilegt, að þeir vilji útrýma öllum atvinnurekstri einstaklinga, slíkt sé í samræmi við stefnu þeirra, sósíalistanna. En þetta er í raun og veru engin afsökun, þar sem það mundi kosta íslenzku þjóðina neyð, smán og þjáningu. Og leið þeirra til þess að koma sósíalismanum á er sú að koma atvinnulífinu í kaldakol.

Gífuryrði þeirra sósíalista um verzlunarstéttina eru nú hætt að hitta markið — ef gífuryrði þá yfirleitt nokkurn tíma hitta nokkurt mark. — Kommúnistar eru þannig gerðir, að þeir þurfa alltaf einhvern aðila, sem þeir reyna að skella allri skuld á — eins og aðferð nazista var í Þýzkalandi. — En hvers vegna á að prédika ofsókn ríkisvaldsins gegn heildsalastéttinni? Mér er spurn. Á ríkisvaldiðað taka ákvörðunarvaldið af þjóðinni um það, hvar þjóðfélagsmeðlimirnir hafa sína verzlun? Nei. Ríkisvaldið á að setja almennar reglur, reglur um viðskiptalífið, þ. á m. um innflutningsverzlunina, og gefa öllum tækifæri til þess að reyna sig um að gera sem hagkvæmust innkaup. En það er von, að hv. þm. Sósfl. þori ekki að fara þessa leið, því að með því móti geta þeir aldrei hnekki einstaklingsframtakinu. Það er ekki frjáls þróun, sem mundi koma sósíalismanum á, heldur valdboð ofan frá. Og þetta virðist sósíalistum fullkomlega vera ljóst.

Mér hefði ekki dottið í hug að fara að ræða þetta mál, sem hér liggur fyrir, á þessum grundvelli, ef öll ræða hv. 6. þm. Reykv. hefði ekki gengið út á ofsókn og rógburð um heila stétt hér í þessu landi og ummæli. sem óhugnanlegt hefur verið að heyra í þingræðu, þessar margupptuggnu svívirðingar um verzlunarstéttina í þessu landi sem heild. Og ég vil í eitt skipti fyrir öll mótmæla því, vegna þess að ég hef talið mig hafa lagt áherzlu á, síðan ég fór að starfa hér á þessari samkomu. að starfa heldur að því að sameina kraftana. Og mér er engin launung á því, að ég var einn af þeim mönnum, sem vildu. að allir flokkar sameinuðust um átökin til að leysa vandamálin í þjóðfélaginu. Ég hef lýst því enn fremur hér yfir áður í þinginu, að ég tel enga raunverulega bót ráðna á vandamálunum nema með því að lækka dýrtíðina í landinu. Hvort við ættum að stiga skrefið það langt að færa hana niður um helming, skal ég ekki segja. Það er hagfræðinganna að segja til um, hvort það eigi að gera, en að líkindum mundi það vera nauðsynlegt. til þess að við stæðum jafnhliða erlendum þjóðum um að keppa um markaði fyrir okkar framleiðsluvörur. Hvort við ættum að stiga þetta skref í einu eða taka að stig af stigi, skal ég ekki heldur um segja. Ég hef líka tekið fram, að það stendur ekki á verzlunarstéttinni um að færa sínar fórnir í þessu efni. En það er engin sérstök stétt í landinu, sem fær sé um að leysa þetta ein út af fyrir sig. En það hefur verið von mín, að allir flokkar þingsins litu svo á atvinnulífið, að við værum lánsmenn, ef við gætum leyst þetta vandamál fyrir atvinnulífið í landinu. Það er engin lækning gagnvart framleiðslunni að ráðast gegn verzlunarstéttinni sem slíkri, sem í öðrum löndum er jafnan talin ein af þremur þýðingarmestu stéttum þjóðfélagsins. En þær stéttir, sem reka atvinnugreinar, sem taldar eru öruggastar til að veita tekjuliði bæði til bæja og ríkis, eru þær þrjár stéttir, sem stunda verzlun, iðnað og siglingar. Það væri mín heitasta ósk, að við gætum verið þeir lánsmenn að geta tekið hér höndum saman til þess að geta farið að feta niður dýrtíðarstigann aftur.

Hv. 2. þm. Reykv. vitnaði í frv. og skýrslugerð, sem prentuð er á þskj. 376, sem er frv. um skipun innflutningsmála, flutt af hv. 4. þm. Reykv., prófessor Gylfa Þ. Gíslasyni. Mér fannst hv. 2. þm. Reykv. reikna nokkuð bókstaflega hér eftir þessum tölum í þessari skýrslu. Og mér fannst það í raun og veru alveg óþarfi, vegna þess að aftan á þessu þskj. standa „skýringar verðlagseftirlitsins við skýrsluna.“ Ég vil benda á það, sem ég hef út á þessar tölur að setja, sem komu hér í dag fram svona bókstaflega. Ég tel það ákaflega skaðlegt, þegar reyndir menn kasta svona fram, menn, sem ætlazt er til um, að orð þeirra séu tekin alveg bókstaflega. Hér er t.d. ekkert gert ráð fyrir rýrnun, sem getur verið ekki óverulegur þáttur. Þessa er ekki tekið tillit til í skýrslu hv. þm., þegar um það er að ræða, hvað álagning geti orðið mest. En það er áreiðanlegt, að ef þessi liður væri talinn hér með, mundi hann nema milljónum kr. á þeirri umsetningu, sem um er að ræða í skýrslunni. Í skýrslunni er einnig gengið út frá því t.d. um matvöru, að allt sé keypt af heildsölum og selt svo áfram með smásöluálagningu. Þetta er reginmisskilningur, vegna þess að mikill hluti af þessum kornvörum er alls ekki seldur í smásölu. Má benda t.d. á, að öll kornvara, sem flutt er til Rvíkur og fer í brauð og kex o.fl. þess háttar, er alls ekki seld í smásölu. Annað dæmi vil ég taka. Það er í sambandi við skófatnað. Gert er í skýrslunni ráð fyrir heildsöluálagningu á þær vörur og smásöluálagningu í ofanálag. Nú vitum við allir, sem hér erum, ef við viljum hugsa um það, að mjög mikið af skófatnaði er flutt inn af smásölunum sjálfum, og þar er því ekki um neina heildsöluálagningu að ræða, þótt skýrslan reikni með því. Hér eru aðeins tvö dæmi. Þá má benda á það, að um allflestar iðnaðarvörur, sem fluttar eru til landsins, er sama aðferð notuð við útreikninginn í skýrslunni. Þar er fyrst gert ráð fyrir heildsöluálagningu og síðan smásöluálagningu, enda þótt í sumum tilfeilum sé um hvorugt að ræða. (GÞG: Þetta er misskilningur hjá hv. þm.) En villandi er. að þeir, sem ekki til þekkja, fái þessar lágu tölur, en ég veit, að hv. 4. þm. Reykv. er svo sanngjarn. að hann getur rætt málin í bróðerni. En það á ekki að telja nema það, sem rétt er, og í flestum tilfellum er um aðra álagningu að ræða, en heildsöluálagningu. Í skýrslunni er gert ráð fyrir, að álagningin sé nægileg, en þeir, sem til þekkja, vita, að í mörgum tilfellum er ekki um slíkt að ræða, því að þegar stærri kaup eru gerð, þá er ekki um smásölu að ræða, en skýrslan tekur ekkert tillit til þess. Ég vil benda á, að í skýrslunni er gert ráð fyrir bæði heildsölu- og smásöluálagningu á byggingarefni, en til frekari skýringar vil ég taka það fram, því að mér er kunnugt um það, að þegar um stóra sölu er að ræða, kemur ekki til greina, að þessi álagning sé notuð að fullu, og er þá fremur um umboðssölu að ræða. Ég vildi skjóta þessu fram, vegna þess að hv. 2. þm. Reykv. lagði of mikið upp úr þessum tölum, og fannst mér því rétt að koma með þessa skýringu. En eins og ég tók fram í upphafi, þá er skýrslan í rauninni aðallega form og skema.

Og svo að lokum þetta til hv. 6. þm. Reykv., því að okkur þykir oft gaman að tala saman, og vil ég þá spyrja hann út af atriðinu um kaffið, hvort framkvæmdastjórinn í Kron telur þá álagningu nægilega. (SigfS: já). Mér þykir það ekki sennilegt, en hv. stjórnarnefndarmaður veit sjálfsagt betur.