22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (3464)

120. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Frsm. (Pétur Magnússon) :

Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar, og eins og sjá má á nál. á þskj. 961, hefur hún ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Einn nm., hv. 4. landsk. þm., vill, að frv. verði fellt, og mun hann gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Hinir 4 eru sammála um að leggja til, að frv. nái fram að ganga, en með þeirri breyt., að síðari málsgr. 1. gr. frv. falli niður.

Frv. er þannig til komið, að síðan 1928 hefur Eimskipafélag Íslands notið skattaívilnana, en frá 1933 var félagið undanþegið tekju- og eignaskatti vg hefur ekki greitt útsvar eftir efnum og ástæðum, heldur aðeins 5% af nettótekjum. L. þessi voru upphaflega til tveggja ára, og síðan hafa þau ætíð verið framlengd og ávallt til tveggja ára. Þau runnu út um s. l. áramót, og er þetta frv. til að framlengja þessa ívilnun um næstu 2 ár. Eins og öllum þingheimi er kunnugt, hefur Eimskipafélag Íslands á s. l. ári gert samning um smíði 6 flutningaskipa og nú fyrir skemmstu fest kaup á flutningaskipi frá Ameríku. Þess vegna er því nú, þó að fjárhagur þess megi teljast góður, þörf á miklu fé, því að öll þessi skip eru nú á tímum mjög dýr, og er hætt við, að sjóðir félagsins tæmist, áður en öll þessi skip hafa verið greidd að fullu. Nokkrar kvaðir eru svo á félaginu í sambandi við þessar skattaívilnanir, og er þá fyrst, að það skal veita árlega 60 mönnum ókeypis far til útlanda, og má nú vissulega segja, að það sé ekki þung kvöð, en hitt er aftur þyngra, að það skal halda uppi siglingum á hafnir víðsvegar um landið, sem að öðrum kosti fengju ekki vöruflutninga nema með miklum fjárveitingum úr ríkissjóði. (PZ: Hefur Eimskipafélagið sinnt þessu nú undanfarið?) Já, hv. þm. veit, að það hefur annast vöruflutninga til fjölda hafna og ekki hlíft sér í samgöngumálum innanlands. Þá er einnig á það að líta, að fjöldi manna á hlut í því, og var það þó enn meira í öndverðu, og félagið því fyrst og fremst rekið með hagsmuni almennings fyrir augum, en ekki sem gróðafyrirtæki, enda væri rekstri félagsins þá hagað á annan hátt. Ég býst því við, að flestir muni fallast á það, að ástæða sé til skattaívilnana, ekki síður nú en undanfarin 20 ár. Um brtt. er það að segja, að n. vill að svo stöddu ekki taka afstöðu til þess, hvort rétt sé að veita öðrum aðilum svipuð hlunnindi, ef þeir halda uppi samgöngum milli landa eða á hafnir innanlands, en meiri hl. er sammála um það, að ekki sé rétt að blanda því saman við skattfrelsi Eimskipafélags Íslands. Ef sú skoðun verður ofan á, að veita beri útgerð samvinnufélaganna skattfrelsi, þá er eðlilegt, að það sé gert með sérstökum l., en ef almenn l. yrðu um þetta samin, er eðlilegt, að Eimskipafélag Íslands félli þá undir þau ákvæði. Ég þarf svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Þetta er mál, sem hv. þm. kannast vel við, þar sem það hefur verið til umr. annað hvert ár nú síðustu 20 árin, vil aðeins endurtaka það, að meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, að því er snertir Eimskipafélag Íslands.