22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (3470)

120. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ef 1. landsk. þm. heldur, að hann fái hagkvæmari samninga hjá Eimskipafélaginu með því að styðja að því, að það fái skattfrelsi, þá má kannske afsaka málflutning hans. Hann sagði, að það væri svo dýrt að sigla með ströndum fram. En hvað hafa þeir gert til þess að bæta úr því. Var ekki frv. um að byggja flóabát drepið bæði 1944 og 1945? Stjórnin vildi byggja fyrir fólkið til að leika sér — en fyrir hag alþjóðar? Það var ekki verið að hugsa um stór skip þá. Nei, það var eitthvað annað. Og það var á Skúla Guðmundssyni, sem það strandaði, að ekki var farið að byggja þetta stóra skip.

Nei, það er svo fjarlægt því, að stjórn Eimskipafélagsins hafi nokkurn tíma, a. m. k. nú á síðari árum, starfað með hag almennings fyrir augum. Það hefur haft sinn eigin hag fyrir augum og þeirra manna, sem hafa dansað kringum gullkálfinn. Ef hugsað væri um almenning, mundu skipin koma inn á hafnir úti um land og fólk þar ekki vera látið greiða tvöföld farmgjöld. Þetta stendur líka í sambandi við hitt, að það sé Reykjavík, sem Eimskipafélagið fyrst og fremst starfi fyrir, og Reykvíkingar taki sínar prósentur af hverju „kollí“, sem kemur hér í land. Félagið er rekið með hag þessara manna fyrir augum, en úti um landsbyggðina sjást skip þess ekki. Og svo á að fara að styrkja þetta.