10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það hefur ýmislegt komið fram í þessum umr., og ýmsu af því, sem ég hafði skrifað hjá mér, hefur nú þegar verið svarað, sumu að nokkru leyti og sumu fyllilega, og ég mun því sleppa ýmsu, sem annars hefði verið ástæða til að segja. En ég vil þó alveg sérstaklega taka einn þátt í þessu máli og sögu þessa máls, en það er hlutverk Alþfl. í þessu mikla máli. Hlutverkið, sem Alþfl. hugsar sér að hafa í þessum umr., er það, að hann ætlar ekki að taka þátt í þeim. Það má segja, að það hafi verið fyrir tilviljun, að hæstv. forsrh. sá sig tilneyddan að segja hér nokkur orð, þó að það væri svo herfilega úr lagi fært, að flokksbróðir hans stóð upp og veitti ráðh. ofanígjöf fyrir það. sem hann hafði fullyrt, og ég held líka, að það sæmi sér bezt fyrir hann að tala sem minnst í þessu máli.

Hæstv. forsrh. lagði höfuðáherzlu á það og nefndi það sem rök fyrir þessum tollahækkunum, að Jónas Haralz hefði í hagfræðingaálitinu lagt til, að tollar yrðu hækkaðir á einhverjum vörum. Ég verð nú að segja, að illa hefði staðið fyrir Alþfl., ef Jónas Haralz hefði ekki látið þetta álit í ljós, og það var helzt að skilja á hæstv. forsrh., að Alþfl. hefði ekki séð sér fært að vera með þessu góða máli, ef Jónas Haralz hefði ekki verið búinn að láta þetta álit í ljós. Og það verður að segja það eins og það er, að það er næsta furðulegt að koma fram með þetta mál hér í þinginu og koma svo með þetta sem rök fyrir þessum tollahækkunum, eins og næstum allir hafa gert, sem fyrir því hafa talað. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta mál varðandi hagfræðingaálitið, en vil þó aðeins segja það í fyrsta lagi, að það er ekki stefna Sósfl., sem fram kemur í frv., og í öðru lagi er allt úr lagi fært og slitið úr tengslum við það álit og þær till., sem hagfræðingarnir lögðu til. Svo fer ég ekki nánar út í það. En ef maður horfir yfir sögu Alþfl. í sambandi við tollamál, þá sannar hún, að enginn flokkur hefur glamrað meira á móti tollum, en hann — og það frá fyrstu byrjun sinni. Og í rauninni er það ekkert óeðlilegt, vegna þess að tollarnir — sú tekjuöflunarleið — er ein af þeim aðferðum, sem eyðslustéttirnar — eignamennirnir — hafa notað til þess að velta byrðunum yfir á almenning. Þetta er gamla aðferðin, og þess vegna er ekki óeðlilegt, þó að Alþfl. hafi gert það að einu sínu mesta áhugamáli að berjast á móti tollahækkunum. En það hefur a.m.k. á seinni árum elt Alþfl., að hann hefur alltaf verið fús til þess að ganga inn á hvaða tolllatill., sem fram hafa komið. Þetta er ekki í fyrsta skipti. sem Alþfl. gengur inn á stórfellda tollahækkun. Í því að afgreiða tollskrána frægu í tíð þjóðstj. fólst stórfelld tollahækkun. Ég býst við, að það séu fá þing, sem Alþfl. hefur haldið svo, að hann hafi ekki einhverja yfirlýsingu gefið í tollamálum, og í mjög mörgum af stefnuskrám sínum hefur hann gert það að aðalatriði eða verulegu atriði og seinast á flokksþinginu, sem haldið var í nóv. s.l. Þá var komið inn á þetta mál, og í áliti, sem samþ. var á því þingi, var svo hljóðandi setning:

Alþfl. vill enn á ný leggja áherzlu á þá stefnu sína, að tekna í ríkissjóð sé fyrst og fremst aflað með beinum, mjög stighækkandi sköttum.“

Það er ekki hægt að taka það greinilegar fram, að hann vill ekki fara tollaleiðina í yfirlýsingum sínum. En þó er hann ekki fyrr kominn í stj. en ríkisstj. leggur fram sem sina fyrstu aðferð til tekjuöflunar stórkostlega aukna tolla, tollhækkanir, sem nema um 35 millj. kr. Ég veit það ósköp vel og hef reynslu fyrir því, að frá hendi fulltrúa auðmanna er alltaf sýknt og heilagt klifað á því að leysa þetta vandamál með því að útvega tekjur með tollum — alltaf stöðugt. Það var sami söngurinn frá hendi þessara afla í þeirri ríkisstj., sem ég átti sæti í, en það komst ekki lengra en það, að frv. var samið um bensínskatt svipað því frv., sem hér liggur fyrir. Þó var ekki gengið eins langt, en þetta strandaði á því, að Sósfl. sagði þvert nei. Þar með voru allar umr. um tolla búnar að vera. En það var einmitt þessi tekjuöflunarleið, sem Sjálfstfl. og auðmannaflokkar allra landa hafa alltaf á reiðum höndum og vilja stöðugt gripa til á móti till. undirstéttanna, sem vilja hafa stighækkandi skatta. Það, að ríkisstj., þegar hún er að byrja að afla sér nýrra tekna, sem vitað var, að þurfti að afla, — skuli þá taka það ráð að koma með tollhækkanir og láta það koma á undan öllu öðru, það sýnir hvaða öfl það eru, sem hér ráða. Það sýnir það, að Sjálfstfl. er þarna algerlega látinn ráða fyrir verkum, hlutverk hinna flokkanna tveggja er ekkert annað en að segja já og amen. Ég held, að maður sjái þarna, hvað Alþfl. eða vinir forustumanna hans leggja mikið kapp á það að hafa forustuna. Þeir ganga skilyrðislaust inn á allar kröfur verzlunarstéttarinnar — auðmannanna.

Það væri rétt fyrir þm. að rifja upp fyrir sér allt það mikla orðagjálfur, sem heyrðist hér í útvarpi og blöðum frá hendi Alþfl. fyrir síðustu kosningar um það, að taka þyrfti peningana þar, sem þeirra væri að leita, — hjá bröskurunum, hjá auðmannastéttinni, verzlunarstéttinni.

Það er rétt að rifja þetta upp og bera það saman við það frv., sem hér er komið fram. Verzlunarstéttin hefur þarna algerlega sagt fyrir verkum og neitar að taka á nokkurn hátt þátt í þeim byrðum, sem verið er að leggja á íslenzku þjóðina, og það er einmitt sú stéttin, sem hefur grætt mest undanfarin ár, og það var búið að búa þannig í haginn fyrir hana fyrir stríð, að hún hafði meiri gróðamöguleika en nokkur auðmannastétt í nokkru landi hefur haft. Ég verð að játa það, að ég var vonsvikinn yfir ræðu hv. 4. þm. Reykv., að hann skyldi ekki koma neitt inn á þetta mál, af því að þessi aðferð, sem hér er viðhöfð, er í fyllsta ósamræmi við allt, sem þessi þm. bar fram meðan hann leitaði til kjósenda, og ég held, að margir af þeim mönnum, sem treystu honum til skeleggrar baráttu við auðstéttirnar, — ég býst við, að þeir menn verði vonsviknir yfir því, að svo illa skuli til takast, að hrein tilviljun neyddi hann til að taka hér til máls. — Það er verið að tala um það, og þeir ráðh., sem hér hafa talað, hafa lagt áherzlu á það, að það verði einhverjir að fórna, ef það eigi að vera hægt að vinna bug á dýrtíðinni. Það er rétt, að það þarf einhver að fórna, en með þessum tollahækkunum er verið að láta almenning, þá, sem sízt hafa beinin til þess, fórna, en hinir, þeir græða á þessu. Þeir, sem verst eru settir af eignamönnunun og í verzlunarstéttinni, þeir eru skaðlausir, en langflestir græða. Það eru engir tímar eins æskilegir fyrir verzlunarstéttina og þeir tímar, þegar verið er í skyndi að hækka vörur í verði.

Það er búið að vera umtal um það í marga mánuði, að það eigi að fara fram eignakönnun. og núv. ríkisstj. lýsti yfir því, þegar hún settist á laggirnar, að hún mundi framkvæma eignakönnun án þess frekar að gera grein fyrir því, með hverjum hætti hún skyldi fram fara. Og nú, þegar liðnir eru 2 mánuðir frá því að hún settist á laggirnar, þá hefur enn þá ekkert heyrzt um eignakönnunina annað en það, að hún muni vera til meðferðar og athugunar hjá ríkisstj. Þar að auki er búið að liggja í loftinu um alllangan tíma, að ríkisstj. hafi í hyggju að koma með þessi tollafrv.

Það er vitað, að bæði þetta umtal um eignakönnunina og eins vitneskja, sem hefur síazt út úr herbergjum ríkisstj. um tollhækkanir, það hefur valdið því, að vörur hafa verið keyptar upp í stórum stíl, og þær vörur verða svo geymdar af verzlunarmönnum, þangað til búið er að tollafgreiða ný vörupartí með hærri tollinum, og þá verða allar vörurnar settar á markaðinn og það mun sýna sig, að ótal milljónir munu lenda í vasa verzlunarstéttarinnar fyrir þessar aðgerðir. Ég býst við, að slíkar tollahækkanir og þessar muni beinlínis verða hvalreki á fjörur verzlunarstéttarinnar og heildsalanna, og það er ekkert ólíklegt, að ríkisstj. hafi einmitt haft þetta í huga, vegna þess að það sýnir sig, að hún vill ekki láta skerða hár á höfði þeirra manna.

Því er haldið fram, að tollhækkanirnar fari fram til þess að halda niðri dýrtíðinni. Þetta er svo herfileg fjarstæða, að það er alveg furðulegt, að þetta skuli borið á borð fyrir nokkurn mann. Hvað fela þessar tollahækkanir í sér? Þær fela það í sér að rýra gildi krónunnar og því á að passa það eitt að láta ekki þessa hækkun tollanna hafa áhrif til hækkunar á vísitöluna. Allar þær vörur, sem ekki ganga inn í vísitöluna, hækka við tollinn og það verður þeim mun verra fyrir almenning að afla sér þeirra sem almennur kaupmáttur þeirrar krónu, sem launþegarnir fá fyrir vinnu sína, lækkar. Það er enginn vafi á því, að afleiðingarnar af svona starfsemi verða ekki aðrar, en þær að hækka vísitöluna enn þá meir. Það getur verið, að það verði hægt í nokkra mánuði að borga niður með þessari aðferð, en þegar komið er að leiðarlokum og ekki verður lengur hægt að borga niður með þessu móti, sem ekki er gott að segja, hvað verður eftir skamman tíma, þá er alveg áreiðanlega víst, að aðstaðan til þess að kippa í liðinn og koma jafnvægi á verður margfalt örðugri.

Það hefur verið sérstaklega skýrt tekið fram af hendi þeirra ráðh., sem hér hafa talað, að þetta sé aðeins bráðabirgðaráðstöfun, og ég get vel trúað því, að þeir hafi það bak við eyrað, að það geri ekki svo mikið til, þó að vísitalan hækki, vegna þess að þá sé léttara að bera það fram síðar að frysta vísitöluna, eins og það hefur verið kallað, og slíta vísitöluna úr sambandi og ákveða, að hún skuli ekki hækka fram yfir ákveðið stig. Þetta veit ég, að er ofarlega í huga margra manna. sem standa að núv. ríkisstj., og þeir hafa það sennilega bak við eyrað, þegar þeir telja aðstöðu til þess að koma því fram, án þess að almenningur risi mjög kröftuglega á móti því, og þegar aðstaðan er orðin verri, en þeir þó telja nú. Það er þetta, sem þeir hafa á bak við eyrað, þessu er stefnt að með svona fáránlegri afstöðu. Ef þess vegna valin er sú leið að taka peningana hjá þeim, sem mest hafa grætt undanfarin ár, verzlunarstéttinni, sem á mjög óverðskuldaðan hátt hefur grætt fé undanfarin ár, þá hefði verið hægt með niðurgreiðslum að ná miklu meiri árangri, hefði ekki verið sköpuð sú hætta, sem nú er sköpuð um það, að allt verðlag og verðgildi peninga haldi áfram að fara stórlækkandi, heldur þvert á móti hefði um leið unnizt það, að sá óeðlilegi peningaaustur, sem verzlunarstéttin stendur fyrir, hefði minnkað og komizt á meira jafnvægi í þjóðfélaginu. — Nei, heldur þvert á móti eru tollarnir auknir og það eykur peningaveltuna hjá verzlunarstéttinni.

Það segir sig sjálft, að afstaða launastéttanna getur ekki verið nema á einn veg, og það er að hækka kaupið sem svarar þessari hækkun. Og það sýnir sig, að ekki hefur náðst samkomulag í ríkisstj. um annað, en það að láta launamenn borga brúsann. Aðrir eiga að vera stikkfríir. Það hefur verið talað um, að væntanleg séu fleiri frv. til tekjuöflunar og sagt, að allir ættu eitthvað að láta af mörkum. Meðal annars hefur verið talað um eignakönnun. En hana átti að gera fyrst, því að með henni eru peningar fljótfengnastir og þá væri afnumin sú óvissa, sem drátturinn á framkvæmd eignakönnunarinnar hefur skapað. Með þessum drætti er líka hreint og beint verið að gefa mönnun tækifæri til að búa sig undir gagnráðstafanir gegn eignakönnuninni. Það væri ef til vill hægt að taka alvarlega rök þeirra, sem meðmæltir eru þessu frv., ef fyrst væri tekið af þeim, sem breiðust hafa bökin, en þegar svona er byrjað, þá er ekki hægt annað en mótmæla, þegar ekkert annað hefur verið reynt.

Í þessum umr. hefur verzlunarstéttin dálítið borizt í tal, enda er það eðlilegt, því að engin önnur stétt á meiri sök á þeirri verðbólgu og því slæma fjárhagsástandi. sem nú er. Og það er rétt, að hv. þm. geri sér ljóst, hvernig háttað er hinum óhóflega gróða verzlunarstéttarinnar og hvernig þessi ríkistryggða stétt fer að því að féfletta framleiðslustéttir landsins. Saga þess máls nær allt fram til ársins 1932, þegar gripið var til þess í kreppunni þá að takmarka innflutninginn. Áður höfðu þeir, sem vildu annast innflutning, sjálfir orðið að annast framleiðslu þess gjaldeyrís, sem innflutnings var aflað fyrir. En þá er tekið upp það kerfi. að þeir, sem flytja vilja inn, eru leystir undan allri áhættu við framleiðslu gjaldeyris. Sá gjaldeyrir, sem atvinnuvegirnir sköpuðu með mikilli áhættu, var settur í sameiginlegan sjóð og úthlutað til þeirra, sem fluttu inn. Þannig var tekinn allur sá gjaldeyrir, sem sjávarútvegurinn skapaði við mikla áhættu. Sjávarháskar eru tíðir, aflabrestur algengur og markaðsvandi oft mikill. Þegar svo skipt er þannig milli stéttanna, að sumar eru látnar framleiða gjaldeyri, en aðrar eyða honum, þá er raskað öllu eðlilegu samræmi í þjóðfélaginu. Með þessu var öll áhætta tekin af verzluninni. Hún varð öruggasti atvinnuvegurinn, en sjávarútvegurinn aumastur. Með þessu var komið á einokun, þegar ríkið tekur allan gjaldeyrinn og úthlutar svo gjaldeyris- og innflutningsleyfum til sinna útvöldu, sem eru öruggir með að græða, hversu ill innkaup sem þeir gera, og því meira sem vitlausara er keypt, þar sem öll verzlunin er kvótaverzlun. Gjaldeyrisbirgðir þjóðarinnar voru alltaf svo litlar, að alltaf var öruggt, að allt, sem inn var keypt, seldist. Það var því sama, hve hörmuleg innkaup menn gerðu, þeir voru alltaf öruggir með að græða og sá, sem keypti verst, græddi mest. Þetta er höfuðástæðan til þess, að sjávarútveginum hnignaði, en verzlunargróðinn óx dag frá degi. Og nú veltir íslenzka verzlunarstéttin sér í peningum og er á góðri leið með að sliga atvinnustéttirnar. Og þetta er ekki frjáls verzlun. Þetta er einokunarverzlun, þar sem fáum útvöldum auðmönnum er gefinn allur innflutningurinn og um leið eru þeir leystir undan allri áhættu. Þetta kerfi hefur leitt til hins ömurlegasta öngþveitis og gert verzlunarstéttina að langsterkustu stétt þessarar þjóðar. Og þegar þessa stétt grunaði, að hún þyrfti að leggja eitthvað af mörkum. þá kom hún á fót þeirri stjórn, er nú situr, til þess að tryggja það, að álögurnar yrðu fyrst og fremst lagðar á almenning, en hún sjálf gæti haldið sérréttindum sínum óskertum. Og það er í framhaldi af þessari viðleitni heildsalaklíkunnar, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er komið fram. Það er svo næsta hlálegt, þegar hæstv. menntmrh. er að fjargviðrast út af því öngþveiti, sem nú er, og kennir fyrrv. ríkisstj. um. Orsakanna er að leita til þess tíma, er hann hóf afskipti sín af íslenzkri fjármálapólitík. Það var flokkur hæstv. menntmrh., Framsfl., með öflugum stuðningi Alþfl., sem skapaði það kerfi, er leitt hefur til öngþveitis, og þær lítilfjörlegu tilraunir, sem þessir flokkar gerðu til að hjálpa sjávarútveginum, nægðu ekki svipað því til að mæta því tjóni. sem þetta vitlausa kerfi hefur valdið íslenzkum sjávarútvegi.

Síðastliðin 2 ár sameinuðust íslenzkir útvegsmenn og íslenzk alþýða í baráttunni gegn heildsalavaldinu. Því miður hefur sú barátta endað með ósigri í bili, og því situr þessi ríkisstj., en það er auðsætt, að þessi stj. finnur, að þetta kerfi er veikara en svo, að á því verði stætt til lengdar. Nú eiga allir launþegar og framleiðendur í landinu samleið gegn verzlunarfarganinu. og baráttan gegn því mun halda áfram og hamingja íslenzku þjóðarinnar er undir því komin, að takast megi að vinna bug á því öngþveiti, sem sérréttindi heildsalanna hafa leitt yfir landið. Heildsalarnir halda því fram, að óheppilegt sé að koma á landsverzlun með innflutning. En þessi stétt er ekki á móti landsverzlun með útfluttar vörur. Og hvers vegna? Vegna þess, að öllum gjaldeyri er útflutningsverðmætin skapa, er safnað í sérstakan sjóð, sem heildsalarnir eru svo mataðir úr. Ég vil leyfa mér að spyrja málsvara heildsalanna, háttv. 3. þm. Reykv., hvað það sé, þegar allur gjaldeyririnn er tekinn í opinberan sjóð. Hvað er það annað en landsverzlun? Heildsalarnir eru með landsverzlun þegar þeir græða á henni og geta hagnazt óhóflega á þeim gjaldeyri, sem sjávarútvegurinn skapar oft á tíðum með tapi. Það er staðreynd, að eftir vertíðir, sem kostað hafa sjávarútveginn milljónatap, hefur skapazt gjaldeyrir, sem fært hefur heildsölunum milljónagróða. Það er sjávarútvegurinn, sem skapar gróðamöguleika verzlunarstéttarinnar, og útgerðarmenn gera sér ljóst, að þeir gætu hagnazt, ef þeir fengju sjálfir að ráðstafa gjaldeyrinum, jafnvel þótt lítið veiddist. En gjaldeyririnn er tekinn af þeim og fenginn í hendur hinum ríkistryggðu heildsölum, sem aldrei leggja neitt í hættu. Það er því alveg furðulegt, þegar heildsalarnir halda því fram, að þeir hafi sýnt þegnskap. Af öllum stéttum þjóðfélagsins hafa þeir áreiðanlega minnstan þegnskap sýnt. En að það skuli vera mögulegt, að fáir menn fleyti rjómann af starfi allra landsmanna, byggist á því, að heildsalarnir hafa gert samband við Framsfl. og S.Í.S. Framsfl. telur S.Í.S. sér lífsnauðsyn, og því hefur hann gert svo náið samband við heildsalana, að þar gengur nú ekki hnífurinn á milli. Og því miður verður að játa, að þetta samband stóð óhaggað alla tíð síðustu ríkisstj., enda stóð ekki á Jóni Árnasyni. Vilhjálmi Þór og hæstv. menntmrh., sem nú orðið er naumast annað en vikapiltur þeirra, að hjálpa verzlunarstéttinni til að halda sérréttindum sínum.

Það var eitt af skemmdarverkum heildsalanna að svíkjast um að leggja til hliðar 15% af gjaldeyrinum, svo sem lög mæla fyrir. Gjaldeyririnn var allur notaður þvert ofan í tillögur okkar sósíalista, bara til þess að heildsalarnir gætu grætt enn þá meira. Það var eitt af skilyrðum sósíalista fyrir stjórnarsamvinnu að halda fast við þessi lög, en það þótti óhæfa að skerða sjóð heildsalanna og gjaldeyrinum var eytt óhóflega í fánýta hluti. Sjálfstæðismenn vissu, að sósíalistar mundu aldrei samþykkja tollhækkanir, og því eyddu þeir gjaldeyrinum til þess að auka gróða heildsalanna. En heildsalavaldið lét sér það ekki nægja, heldur kemur á nýrri ríkisstj. til þess að þurfa ekkert af mörkum að láta. Og Framsfl. og Alþfl. styðja heildsalana dyggilega í því að hækka tolla á almenningi, svo að ekki þurfi á þá að leita, er ríkissjóður þarf á fé að halda. Þetta ættu menn að gera sér vel ljóst, og það er eðlilegt, að þetta beri á góma, þegar fjárhagur landsins er ræddur, því að þetta veldi heildsalanna er höfuðátumein þjóðfélagsins, og í samvinnu síðustu ríkisstj. voru gerð drög að því að sameina þau öfl, sem ein eru fær um að vinna bug á þessum braskaralýð. Útvegsmenn gera sér ljóst, hvernig verzlunarstéttin fer að því að féfletta þá og hvernig þessi stétt gerir út Sjálfstfl. og á nægilega sterk tök í Alþfl. og Framsfl. og hvernig heildsalarnir gefa hér út 2 dagblöð, sem kölluð eru blöð Sjálfstfl. og eru nú skrifuð gegn hagsmunum útvegsmanna, enda þótt flestir útvegsmenn hafi hingað til fylgt Sjálfstfl. að málum. Áhrifin af þeim tollhækkunum, sem nú eru lagðar til, verða óhjákvæmilega til þess, að dýrtíðin hækkar. Mótbragð launþeganna hlýtur því að vera krafa um kauphækkun, því að þeir láta ekki verzlunarstéttina komast upp með það að keyra þjóðina enn þá fastar í viðjar öngþveitis og vandræða.