10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Mér þykir ánægjulegt að heyra, að hæstv. fjmrh. virðist nokkuð hafa lært á þessum fundi og er nú farinn að draga í land og reyna að breiða yfir það, sem hann sagði í dag um gerðardómslögin og heildsalana. En það eru staðreyndir, að hann sagði annað og meira í dag. Í fyrsta lagi er það staðreynd, að hann hefur hér lýst yfir því, að mesta óhappaverkið í íslenzkum stjórnmálum á seinni árum hafi verið afnám þrælalaganna 1942, þ.e.a.s. gerðardómslaganna, sem gerðu að engu rétt verkalýðsfélaga til launahækkunar. Óhappaverkið, sem hann talar um, er það, að Dagsbrúnarverkamenn hafa síðan fengið grunnkaup sitt hækkað úr kr. 1.45 í kr. 2.65. — Í öðru lagi er það staðreynd, þó að hæstv. fjmrh. hafi einnig í því efni dregið í land, að hann sagði í dag og játaði á sina eigin stétt, heildsalana, að það væri algeng regla hjá mörgum þeirra að láta umboðslaun, er þeir fengju hjá leverandörum erlendis, á sérstakan reikning, og þar með brjóta landslög, gjaldeyrislögin, og draga sér erlendan gjaldeyri á ólöglegan hátt. Og það er staðreynd, að hann hefur þannig játað, að ef réttir menn ættu í hlut, væri þjóðin svikin á þennan hátt, og að hann hefur varið þessi lögbrot, sem miða að persónulegri auðgun.