30.01.1947
Neðri deild: 62. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (3577)

148. mál, vatnsveitur

Frsm. (Sigurður E. Hlíðar) :

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 331 er flutt af heilbr.- og félmn. Nd. eftir ósk samgmrn., og hefur n. fallizt á, að það verði samþ., þótt hins vegar einstakir nm. áskilji sér rétt til að fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Tildrög þess, að þetta frv. er fram komið, eru þau, eins og í grg. segir, að á Alþ. 1945 var samþ. þál. þess efnis að skora á ríkisstj. að láta athuga og gera yfirlit um, hver af kauptúnum og kaupstöðum landsins búa við óviðunandi neyzluvatn og hvaða úrræði komi helzt til greina á hverjum stað, og enn fremur að láta undirbúa fyrir næsta reglulegt þing löggjöf um stuðning ríkisins við vatnsveitur fyrir þau kauptún og kaupstaði, sem eiga svo erfiða aðstöðu, að þeim er algerlega um megn að ráðast í slík fyrirtæki af eigin rammleik. Í grg, segir líka, að ráðuneytið hafi beðið vegamálastjóra að safna skýrslum um þessi mál í ýmsum kaupstöðum og kauptúnum landsins, og hefur vegamálastjóri gert heildaryfirlit, er fylgir grg. þessari. Af yfirliti þessu sést, að aðeins í 2 kaupstöðum, Siglufirði og Akureyri, er vatnsveitan talin fullnægjandi. Og að því er kauptúnin snertir, þá er vatnsveitan talin nægileg í 11 kauptúnum, í 15 kauptúnum ófullnægjandi vatnsveita. Í 6 kauptúnum voru aðeins sérveitur í fleiri eða færri hús, en í 11 kauptúnum voru engar veitur, aðeins brunnar.

Má af þessu sjá, að þessu máli eða þessum þætti í heilbrigðislífi þjóðarinnar er ekki of vel á veg komið og því full nauðsyn til, að ríkið hlaupi undir bagga og styðji að endurbótum á þessu sviði. Gengur þetta frv. út á það á ýmsa vegu, sem þó sérstaklega kemur fram í 1. gr., þar sem stendur, að ríkissjóður veiti styrk til vatnsveitna, er sveitarfélög láta gera, samkvæmt þeim reglum, er í l. þessum segir. Enn fremur er ríkisstj. samkv. 6. gr. heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs nauðsynleg lán, er sveitarstjórn kann að taka til stofnæðar vatnsveitunnar. En hér er þó þess að gæta, að í 4. gr. þessara l. er það tekið fram, að styrkur ríkissjóðs nái til greiðslu hluta af kostnaði við stofnæðar, þar með taldir vatnsgeymar, dælur og jarðboranir.

Annars þarf ég ekki að halda hér langa framsöguræðu, því að grg. er glögg og ber með sér það, sem hér er farið fram á, og málið sjálft þess eðlis, að ég geri ráð fyrir, að þm. telji það skyldu sína að fylgja því fast fram, og vænti ég, að það gangi fljótt gegnum þessa d. og verði vísað til 2. umr.