30.01.1947
Neðri deild: 62. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (3578)

148. mál, vatnsveitur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hv. heilbr.- og félmn. og frsm. hennar fyrir að hafa tekið að sér flutning málsins og koma því hér á framfæri í d. Hv. frsm. n. hefur nú skýrt þau rök, sem liggja til þess, að þetta frv. er fram komið, svo að ég hef aðeins litlu við að bæta. Það er þál., sem borin var hér fram fyrir rúmu ári og fór í þá átt að hefja undirbúning undir þetta mál, sem er sú eiginlega orsök til þess, að málið er flutt hér nú í þessu formi, þó að ýmsum hafi áður verið og sé enn ljós nauðsyn þess, að á þessum málum sé ráðin bót. Menn kunna að segja eða kann að finnast, að ríkið teygi sig smátt og smátt inn á mörg þau svið, sem það ekki hefur áður gert, og bindi sér fjárhagslega bagga á mörgum sviðum. En um þetta mál vil ég segja það, að hér er kannske nauðsynin hvað brýnust á því, að ríkið grípi inn í. Það er áreiðanlega eitt af frumskilyrðum þess, að menn geti lifað saman í samfélagi, að hafa neyzluvatn. Ríkið sér ástæðu til að leggja vegi, byggja brýr og leggja síma út um landið, og allt er þetta þarft og gott. En ég vil þó segja, að ekkert þessara atriða sé eins nauðsynlegt og það að hafa gott neyzluvatn, en ástandið í þessum efnum er svo slæmt, eins og hv. frsm. hefur tekið fram, að aðeins 2 af kaupstöðum landsins hafa sæmilega vatnsveitu, en allir hinir lélega og sumir enga, og í kauptúnum úti um land er ástandið sízt betra, þar sem fólk verður sums staðar að nota vatn úr brunnum, þar sem hætta er á, að afrennsli ofanjarðar berist í brunnana og spilli þannig neyzluvatninu. Það er þess vegna ekki unnt að neita hinni miklu nauðsyn á afgreiðslu þessa máls og að úr þessu ástandi verður að bæta, en að því á frv. að miða.

Að sjálfsögðu má deila um það, á hvern hátt ríkið eigi að hlaupa hér undir bagga og veita aðstoð sína, en þegar verið var að semja þetta frv., gátum við ekki komið auga á aðra leið en þá, að ríkissjóður tæki að sér einhvern hluta kostnaðarins við það að koma vatninu frá uppsprettu þess og til kauptúnanna, því að með því væri jöfnuð nokkuð aðstaðan milli þeirra innbyrðis. Sumir kaupstaðirnir eiga í þessum efnum hægt um vik, þannig að kostnaður við þessar framkvæmdir er lítill, því að þeir eiga skammt að sækja í vatn, en á öðrum stöðum er kostnaðurinn við þetta gífurlegur. Ég veit t. d. um einn kaupstað, þar sem ekkert vatnsból er nærri og þarf að leiða til sín vatn úr 10 km fjarlægð og hefur þar af leiðandi þurft að leggja í mikinn kostnað við þetta. Úr þessu mætti hins vegar bæta með ákvæðum þessa frv., ef að l. verður, því að með því er jafnaður nokkuð aðstöðumunur hinna ýmsu kauptúna og kaupstaða og dregið úr kostnaðinum við að koma þessu í framkvæmd og þeim veitt mjög veruleg aðstoð í þessu skyni. Síðan yrði einnig heimild í l. til að veita ábyrgð fyrir láni til þessara framkvæmda, sem náttúrlega getur orðið mjög veruleg. En allt eru þetta till., sem ég fyrir mitt leyti vil segja, að séu til athugunar og umr. og engan veginn neinar úrslitatill., og mun ég fúslega ræða brtt., ef fram kunna að koma og virtust heppilegar til að leysa málið eftir öðrum leiðum. Höfuðatriðið er það, að fjöldi hreppa, kauptúna og kaupstaða víða um land eiga þessi mál óleyst og er ofviða að leysa þau af eigin rammleik og verða að fá hjálp. Það er ekki aðalatriðið, hvort farin verður sú leið, er frv. gerir ráð fyrir, til þess að veita þessa aðstoð eða einhver önnur, en ég legg ríka áherzlu á, að einhver lausn fáist á málinu og helzt á þessu þingi. Það hefur dregizt nokkuð meir en æskilegt hefði verið að koma þessu máli fram, en ástæðan fyrir því er sú, að það tók vegamálastjóra langan tíma að afla nýrra upplýsinga, sem hann þurfti til að afgreiða málið og hann hefur nú fengið miklu ýtarlegri en liggur fyrir í frv. Það hefur því verið reynt að gera sér grein fyrir kostnaðinum, sem þessu yrði samfara, og liggja nú fyrir hjá vegamálastjóra skýrslur um þetta, en drátturinn á málinu hefur eingöngu orðið vegna þess, að ekki tókst að afla þessara skýrslna fyrr en nú rétt fyrir áramótin. Strax og þessar skýrslur lágu fyrir, var farið að vinna að samningu þessa frv. og það sent hv. Alþ. Ég vildi aðeins láta þessi ummæli fylgja frv. við 1. umr. þess og vil vona, að málið fái einhverja fyrirgreiðslu sem fyrst hér á Alþ.