07.02.1947
Efri deild: 66. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (3595)

148. mál, vatnsveitur

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er rétt, sem tekið var fram hjá hæstv. ráðh., að það er undir ýmsum kringumstæðum nauðsynlegt að geta stuðzt við l. eins og þessi við lagningu vatnsveitna, og það er rétt, sem hæstv. ráðh. tók fram, að ástandið í þessum málum er mjög slæmt í mörgum þorpum — og aðstaðan getur verið erfið, þó að löng leið sé ekki fyrir hendi.

Það er eitt atriði, sem ég vildi minna á. Ég sé ekki, að í þessu frv. felist nein heimild til þess að styrkja vatnsveitur, sem nýbúið er að ljúka við eða nú eru í framkvæmd, og getur þó verið fullkomin ástæða til þess, þar sem slíkar framkvæmdir hafa verið gerðar á síðustu árum. Ég tel það ekki síður nauðsynlegt og hefði því kosið, að frv. yrði breytt í það horf, að heimilt sé að styrkja vatnsveitur, sem hafa verið framkvæmdar á síðustu 2 árum eða eru nú í framkvæmd, og mætti setja þess konar skilyrði, að verkið sé þannig unnið, að það sé styrkhæft samkv. öðrum ákvæðum frv. Ég taldi rétt að breyta þessu nú þegar við 1. umr., því að ég tel þetta réttlætisatriði.