07.02.1947
Efri deild: 66. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (3598)

148. mál, vatnsveitur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af heilbr.- og félmn., en gert ráð fyrir því, að það heyri undir hæstv. samgmrh.

Ég hef hugsað mér að bera fram nokkrar brtt. við þetta frv., og vildi ég gjarnan minnast á þau atriði við hæstv. ráðh., áður en málið fer í n., m. a. vegna þess, að ég hef tekið sæti í heilbr.- og félmn. Mér þætti þess vegna vænt um að heyra afstöðu hæstv. ráðh. í meginatriðum gagnvart þeim brtt., sem ég hef hugsað mér að bera fram við þetta frv.

Ég hef hugsað mér, að inn í frv. verði tekið að styrkja megi einnig aðalæð gegnum þorp. Víða er svo háttað, að stutt er til sjálfs upptökusvæðisins. en aðalkostnaðurinn fyrir þorpið getur legið í því, hversu leiðslan gegnum það er löng, kannske 1000 m.

Í öðru lagi tel ég nauðsynlegt, að tekið sé inn í frv., að heimilt sé fyrir þorp að kaupa vatnsveitur einstaklinga, því að í framtíðinni verður það vitanlega þannig, að bæir og sveitarfélög eiga að eiga vatnsveiturnar, en ekki einstaklingar. Og verði um það ágreiningur, þá sé heimild í þessum l. fyrir því, að einstaklingar, sem eiga veiturnar, megi leggja sama vatnsskatt á vatnsveitur til þess að standa undir kostnaði við þær, þar til samkomulag hefur náðst við þorp eða sveitarfélag um kaup á vatnsveitunni.

Í þriðja lagi tel ég rétt, að sett sé í frv., að sami styrkur sé veittur til sveitarstjórna, þar sem einn eða fleiri bæir í sveit koma að sér vatni. Það er engu síður nauðsyn á aðstoð til sveitabæja, og það er jafnmikið heilbrigðisatriði fyrir þá eins og aðra og knýjandi þörf. Ég álít, að það verði heldur ekki tiltölulega meiri kostnaður að koma vatninu heim að hverjum bæ í sveit en að hverju húsi í bæ. Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta eða hvernig mætti koma þessu fyrir, því að ég mun tala um þetta nánar í n.

Ég mun einnig bera fram brtt. unn það, að í staðinn fyrir styrk sé veitt vaxtalaust lán, sem sé það endurgreiðist, ef vatnsveitan sjálf getur orðið fjárhagslega sterkt fyrirtæki innan ákveðins tíma. Mér er ljóst, að í langflestum tilfellum eru vatnsveitur fjárhagslega sterk fyrirtæki, þó að ekki sé tekinn þungur vatnsskattur. Þá er eðlilegt, að lánið sé endurgreitt vaxtalaust til ríkissjóðs, þegar svo er komið, að vatnsveiturnar eru færar til þess, og sé þá ákveðið um leið, að vatnsskatturinn verði ekki lægri en í bæjum eða því sem næst, sem lagt er á fasteignir þar. Vatnsskattur, sem þannig yrði tekinn af jörðum í sveit, yrði sennilega bezt innheimtur á sama hátt og í þorpum, og jarðeigendur bæru ábyrgð á gjaldinu, en leigjandinn borgaði þá þeim mun hærri leigu eða afgjald sem því svaraði, og er þetta þá líkt og tíðkast í kaupstöðum, að húseigendur bera ábyrgð á þessu gjaldi. Ég mun síðar ræða þetta í n., en ég vildi gjarnan fá að heyra álit hæstv. samgmrh. um þetta.

Þá vil ég breyta 7. gr. nokkuð, og tel ég að hún verði að breytast aftur í sitt fyrra horf.

Mér er ljóst, að víða út um land eru til vatnsveitur, sem eru svo ófullnægjandi, að vart verður unað við, þar sem hvert hús hefur orðið að taka vatn fyrir sig. Slíkar vatnsveitur eru ekki nema til bráðabirgða. Það er nauðsynlegt, að sveitastjórnir hafi rétt til þess að taka skatt af þessum húsum og krefjast þess, að þau falli inn í kerfið, eins og gert er samkv. l. um vatnsskatt fyrir Reykjavík.