07.02.1947
Efri deild: 66. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (3599)

148. mál, vatnsveitur

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég skil það nú svo, að hæstv. ráðh. taki þessum bendingum, sem ég gaf í sambandi við umr. um þetta frv., ekki ólíklega, enda mun það sjást, þegar málið verður athugað, að þetta er sanngirnismál, sem ég hreyfði hér. Það fylgja þær skýringar þessu frv., að endurbætur á vatnsveitum séu styrkhæfar og aðstoðarhæfar samkv. 6. gr. frv., og er því auðsætt, að veitur, sem gerðar eru t. d. fyrir styrjöld, og kosta ekki nema lítið brot af því, sem þær vatnsveitur kosta, sem gerðar hafa verið á síðustu árum, hafa allt aðra og miklu betri fjárhagslega aðstöðu. Og þess vegna hafa þær í raun og veru miklu minni þörf fyrir styrk eða lán, þó að gerðar séu einhverjar endurbætur á þeim, sem kosta bæjarfélagið ekki svo mjög mikil fjárútlát. Slíkt væri miklu minni þörf en að styrkja vatnsveitur, sem gerðar eru á styrjaldartímabilinu, þegar allar framkvæmdir hafa orðið svo dýrar og sveitafélögunum um megn. Ég skildi þetta líka svo, að hæstv. ráðh. tæki þessu vel, ef nokkrar veitur væru styrktar, en því væri mjög þröngur stakkur sniðinn í l., hvaða veitur sem þegar hafa verið byggðar, komi þar til greina. Í þessu sambandi minntist hæstv. ráðh. á vatnsveituna í Stykkishólmi, en í Stykkishólmi stendur alveg sérstaklega á. Þar voru að vísu vatnsveitur, en mjög ófullkomnar, og ég geri ráð fyrir, að allmörgum hv. þm. sé kunnugt það mál. Þar var lagt í á styrjaldarárunum að byggja vatnsveitu, sem reynzt hefur svo dýr framkvæmd, að menn geta ekki risið undir slíkum kostnaði, sem af henni leiðir. Það stendur einnig líkt á á Hólmavík. Þar hefur verið ráðizt í að gera vatnsveitu, og hefur verið ráðizt í báðar þessar framkvæmdir á þeirri forsendu, að lagaákvæði svipuð þeim, sem nú á hér að samþ., yrðu samþ. Ég ætla ekki að rekja neitt þetta mál, en ég veit, að hv. dm., kannske öllum, er það í fersku minni, að það var um það deila í hv. Nd., af hverju það stafaði, að ekki kæmi fram frv. um þetta atriði, áður en vatnsveitan í Stykkishólmi væri byggð. En þess gerist ekki þörf að ræða það að öðru leyti hér. Þessar vatnsveitur eru þess vegna byggðar eftir þeirri forsendu, að svipuð lagaákvæði sem hér eru á ferðinni kæmu til framkvæmda, áður en þær yrðu fullgerðar. Samkvæmt frv., ef að l. verður, finnst mér vafasamt og reyndar augljóst, að veitan í Stykkishólmi kemur ekki undir þessi ákvæði. En hún var einmitt nefnd af hæstv. ráðh. sem dýr veita, og það réttilega, sem þörf væri að styrkja, sem er alveg rétt, og mér hefur verið skýrt frá, að þessi vatnsveita sé svo dýr, að hún sé þorpsbúum þungur baggi, ef ekki of þungur baggi. Sama máli gegnir um þá vatnsveitu, sem ég ber fyrir brjósti, vatnsveituna á Hólmavík, sem hefur orðið nokkuð kostnaðarsöm, og er sérstaklega óþægilegt fyrir þorpið að geta ekki fengið hagkvæmt lán til hennar vegna annarra framkvæmda, sem þorpið þarf að ráðast í. Ég þarf ekki frekar að eyða orðum að þessu. Ég geri ráð fyrir því eftir undirtektum hæstv. ráðh., að auðvelt verði að ná samkomulagi um þetta. En ég er honum sammála um, að takmörkin fyrir því, að veitur, sem nú er verið að ljúka eða verið að gera og nái undir þessi ákvæði, verði að vera mjög þröng. Og mér er vel ljóst, að vatnsveitan í Stykkishólmi ætti að ná undir ákvæði frv. eftir eðli málsins, en vafasamt, hvort hún getur verið það eftir ákvæðum frv., eins og það liggur fyrir.