07.02.1947
Efri deild: 66. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (3601)

148. mál, vatnsveitur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Á ýmsum tímum hafa verið lagðar fram óskir um, að eitthvað svipuð löggjöf og hér liggur fyrir í frv.-formi næði lögfestingu. Ég vildi út af því, sem sagt hefur verið, og þá sérstaklega út af því, sem sagt var um Stykkishólm, geta þess, að þó að svo kunni nú að vera, að þetta frv. nái ekki til þess mannvirkis, sem þar hefur verið framkvæmt og er nærri fullgert og hefur orðið þorpsbúum þungur baggi, þá er ég sammála þeim, sem hafa minnzt á þann stað, að slík mannvirki ættu að geta notið styrks. Hér var í þessu sambandi minnzt á Hólmavík. Ég vil geta þess líka, að í mínu kjördæmi, Vestmannaeyjum, er mikil þörf á því að ná til vatns á einhvern hátt, og hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til þess. Ég vil líka viðurkenna, að hv. Alþ. hefur á ýmsum tímum litið í náð til Vestmannaeyinga, hvað snertir styrk til vatnsleiðslu þeirra, með sérstökum framlagsákvæðum.

Það hefur verið gert talsvert að því í Vestmannaeyjum á þessu ári undir handleiðslu rafmagnseftirlits ríkisins að bora eftir vatni, og þær aðgerðir hafa orðið talsvert kostnaðarsamar, en það sorglega er, að þær hafa ekki borið þann árangur, sem jarðfræðingar, sem þar hafa verið ráðgjafar, höfðu gefið vonir um, svo að það horfir svo við þar, að einhvern tíma í framtíðinni mun sennilega verða snúið sér að því, að tekin verður upp önnur leið, t. d. að leiða vatnið frá landi, ef það væri hugsanlegt, sem sennilega er hugsanlegt frá tæknilegu sjónarmiði. En um það skal ég ekki ráðgera neitt að þessu sinni. En hvað Stykkishólmi viðvíkur, sem hér hefur verið minnzt á, þá bar það mál þannig að, að hv. þm. Snæf. flutti till. um það hér, ef ég man rétt, fyrir 3 árum eða svo, að ríkissjóður skyldi ábyrgjast lán vegna fyrirhugaðrar vatnsveitu í Stykkishólmi. Þetta mál náði af einhverjum ástæðum ekki fram að ganga. Svo var það snemma á starfstíma nýbyggingarráðs, að oddvitinn í Stykkishólmi kom á fund ráðsins til þess að ræða vandræði sín í þessu efni. Nú er það að vísu svo, að ef til vill hefði nýbyggingarráð mátt þá segja strax, að slíkt mál væri ekki innan ramma þess l. að athuga um vatnsveitu Stykkishólms. En sú löggjöf, sem nýbyggingarráð starfaði eftir og starfar enn, var landslýðnum tiltölulega lítið kunn, og menn gerðu sér margir hverjir rangar hugmyndir um, hvers sú stofnun væri megnug og hvað hún mætti sín. Ég þekkti vel að mörgu leyti þetta mál sem þm. og vissi, að það hafði verið leitað til hv. Alþ. að fá styrk á einhvern hátt til þessara framkvæmda, og einnig varaformaður ráðsins, hv. 8. þm. Reykv. Við vorum kunnugri því máli en sumir aðrir, og þess vegna var það svo, að þegar oddvitinn í Stykkishólmi og fleiri góðir menn úr því héraði komu til okkar og lögðu fyrir okkur skýrslur um ástandið þar í vatnsveitumálum þorpsins, fannst okkur í nýbyggingarráði, þrátt fyrir það að á einhverjum forsendum væri hægt fyrir okkur að segja, að það lægi ekki fyrir okkur að skipta okkur af því máli, ástandið þar svo alvarlegt, að við gætum ekki látið það fram hjá okkur fara, úr því að til okkar væri leitað. Og ég hygg, að Alþ. eða ríkisstj. hafi ekki líkað það illa. Okkur datt í hug að benda þeim á að leita fyrirheits stjórnmálaflokkanna um eðlilega afgreiðslu á þingi og ráðlögðum þeim að hefjast handa í málinu, þegar það fyrirheit væri gefið. Eftir þessari ráðleggingu fóru þeir svo, og ég hygg, að hver og einn í nýbyggingarráði hafi stutt að því við sinn flokk, að greitt væri fyrir íbúum Stykkishólms, eins og ég greindi. Það má segja, að þar hafi líka mikla nauðsyn borið til, því að í þessu þorpi er um 700 manns og enn fremur sjúkrahús, en ekkert vatn. Það ástand fannst okkur svo slæmt, að ekki mætti dragast að bæta úr því. Svo var ráðizt í að panta vatnsleiðslupípur, og hefur það kannske gengið seinna með það en menn gerðu sér vonir um í fyrstu. En stjórnmálafl. tóku allir jákvætt undir það að styðja þetta mál. En íbúar Stykkishólms eru þarna, eins og bent hefur verið á, með fyrirtæki, sem er tilkomið á annan hátt en rætt er um að styrkja samkvæmt ákvæðum þessa fn . Ég fyrir mitt leyti álít, að þá ættu þeir aðrir, sem líkt er ástatt fyrir og þessum aðilum — og þar á ég við þá staði, sem hv. þm. Str. minntist á, og mitt kjördæmi — slíkir staðir, sem hafa varið miklu fé í þessu skyni, þar sem annað hvort vatnsveita er komin langt eða komin á veg, ættu að minni hyggju, ef unnt er, að njóta einhverra fríðinda af þeirri nýju löggjöf. Vonast ég til þess, að hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, athugi þessa hlið málsins.

Mér fannst rétt að skýra frá því, hvernig þetta mál bar að, sérstaklega viðkomandi Stykkishólmsvatnsveitunni, aðdraganda þess máls og hvernig stuðningur Alþ. við það mál var undirbúinn, af því að hér var stigið ákaflega stórt spor, hvað þetta pláss snertir. Og ekki sízt fannst mér rétt að taka þetta fram vegna þess, að það var stofnun, sem ég veitti forstöðu, sem tók að sér að standa við hlið Stykkishólmsbúa í þessu þeirra mikla vandamáli.