26.03.1947
Efri deild: 100. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (3607)

148. mál, vatnsveitur

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Ég vil benda hv. 6. landsk. á, að ég hygg, að þetta komi undir 6. brtt. á þskj. 546, þar sem stendur: „Nú óskar sveitarfélag að kaupa vatnsveitu einstaklinga eða félaga, sem fyrir kann að vera á veitusvæði þess o. s. frv.“ Ef þetta er hluti af hreppi, kemur það undir 6. gr. Annars hlýtur sá skilningur að vera hjá hverju sveitarfélagi, að það mundi uppfylla það form, sem þarf til þess, að hluti sveitarfélagsins gæti notið þessa styrks. Mér er ómögulegt að skilja, að sá einstrengingsháttur sé fyrir hendi hjá nokkru sveitarfélagi, að það mundi neita um slíkt. Það stendur líkt á um lendingarbætur. Það eru stundum hafnarbætur á fleiri en einum stað í sama hrepp. Ég þekki til, að það séu lendingarbætur á þremur stöðum í sama hrepp, en þeir verða allir að hafa framkvæmdirnar undir forustu hreppsn., og það hefur verið höfuðsjónarmið hjá þeim að útiloka frá öllum styrk einstaklinga, hvort sem það hafa verið einstakir menn eða félög einstakra manna, ef það hefur ekki verið fullkomlega undir stjórn hreppsfélagsins. Ég er þess vegna fús til að taka til athugunar hverja þá brtt., sem kemur fram, sem gæti gert þetta mál ljósara, svo að það geti betur náð þeim tilgangi, sem til er ætlazt í frv. N. mun athuga það milli umr., og getur hv. 6. landsk. rætt um þetta sérstaklega. Mér hefur aldrei dottið annað í hug en að Glerárþorp ætti að njóta þessa stuðnings. Það stendur svipað á um fleiri staði, t. d. Vík í Mýrdal. Mér er ekki kunnugt um, hvort það kauptún er sérstakur hreppur, en ég hygg, að svo sé ekki. Búðardalur hefur enga vatnsveitu enn. Mér dettur ekki í hug annað en að hann eigi að fá styrk samkv. þessum l. Bíldudalur er partur úr hreppi. Þar er einkaveita. Þetta ákvæði er sett m. a. til þess, að hreppur geti keypt slíka vatnsveitu, til þess að ekki sé hægt að stöðva framkvæmd vatnsveitu, því að það getur verið vatnsveita um meginhluta þorps og svo kæri viðkomandi aðilar sig ekki um að halda áfram. Þá er gert ráð fyrir, að hægt sé að taka slíka vatnsveitu eignarnámi og hún njóti þá sömu hlunninda og aðrar veitur. Sem sagt, ef brtt. kemur um þetta milli 2. og 3. umr., þá skal hún verða tekin til athugunar í n. og reynt að ganga svo frá því, að enginn vafi sé á, að þetta þorp eigi rétt á þessu, en það verður þá að uppfylla öll eðlileg skilyrði og m. a. það, að bak við liggi samþykki hreppsins, því að það er hann, sem á að ábyrgjast. Ríkissjóður á að ábyrgjast allt að 85% og á kröfu fyrst og fremst á hreppinn. Það er ekki hægt að ábyrgjast svona framkvæmdir fyrir einstaklinga, þar sem hægt er að skipta um eigendur ár frá ári.