10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. misskildi mig algerlega. Ég sagði það, að umboðsmaður hér heima hefði neitað að selja samtökum útvegsmanna öngultauma, nema þeir keyptu af honum fiskilínur. Mér er kunnugt um þetta. Það var löng barátta út af þessu hjá L.Í.Ú., sem endaði þannig, að útvegsmenn þar urðu að hætta við að fá línurnar með hagstæðara verðinu. Og það er ekki nema sáralitið, sem menn í þessum félagsskap hafa getað keypt inn sjálfir, vegna þess, hvernig verzlunin með þær vörur, sem þeir nota, er bundin og einokuð hér í Rvík, þ.e.a.s. útgerðarvörurnar.

Ég hef ekki borið það fram, að Landsamband íslenzkra útvegsmanna væri sérstaklega með landsverzlun. (HB: Það er í þingræðu hér frá því í fyrra). En ég hef sagt, að útvegsmenn sæju, að það gæti ekki gengið lengur að hafa verzlunarfyrirkomulagið með útgerðarvörur eins og það væri nú, að heildsalar notuðu verzlun með þær vörur til að græða á henni. Og ég sagði, að þess vegna yrði að grípa til einhverra úrræða annarra, t.d. landsverzlunar. Og ef fyrirkomulagið verður áfram eins og það hefur verið á undanförnum árum. eins og lítur út fyrir, að ætli að verða undir stjórn núv. hæstv. ríkisstj., þá getur verið, að það fari svo, að útvegsmenn verði allir fylgjandi landsverzlun með þessar vörur. Og það eru kannske heildsalarnir sjálfir, sem bezt eru til þess fallnir að skapa þeirri landsverzlun fylgi.