16.04.1947
Efri deild: 119. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (3630)

148. mál, vatnsveitur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umræðum, af því að ég hef hlustað á þær og talið, að hv. 6. landsk. hafi túlkað nægilega þann málstað, sem ég styð. Ég vildi aðeins minnast á ummæli hv. þm. Barð., sem gerði ráð fyrir einhverjum fjandskap milli bænda í Glæsibæjarhreppi og íbúa Glerárþorps, ef farið væri inn á brtt. hv. 6. landsk. á þskj. 593. Ég er nákunnugur þarna og hef ekki orðið var við neinn fjandskap. Mig minnir, að þegar vatnsveita þorpsins var gerð, þá hafi 3 hreppsnefndarmenn verið úr þorpinu, en nú eru 2 nefndarmenn úr þorpinu, en 3 úr sveitinni, og veit ég ekki um neinn ágreining. En það getur verið ýmislegt annað en fjandskapur, sem veldur því, að meiri hluti hreppsnefndar finnur ekki ástæðu til að leggja í framkvæmdir, er aðeins koma við parti af hreppnum, og getur meira að segja verið, að þessi hreppspartur sjái ekki ástæðu til að fara fram á það. Hv. þm. Barð, tók það fram, að víðast, þar sem þorp og sveit séu saman í hrepp, þá sé þorpið í meiri hluta og alls ráðandi í hreppnum. Þetta, hygg ég, að sé rétt, og þar af leiðandi hygg ég, að ákvæðin í brtt. hv. 6. landsk. komi tæplega annars staðar til greina en í Glerárþorpi, eða a. m. k. mjög óvíða, og sé ég ekki, hvaða hætta geti af brtt. stafað og því, að vatnsveitufélagið hafi sama rétt og sveitarfélög samkv. frv. Hv. þm. Barð. hefur tekið fram, að n. vilji ekki veita þennan rétt öðrum en sveitarfélögum, en það hefur minna heyrzt af rökum fyrir því, hvers vegna vatnsveitufélög eigi ekki að hafa réttinn. Ég álít það sérstakt réttlætismál að samþykkja brtt. á þskj. 593 með þeirri breyt., sem flm. sjálfur hefur lagt til á þskj. 625, og tel, að það geti á engan hátt orðið til tjóns, þó að svo sé gert. Það hefur komið í ljós, að þar sem þorp vaxa upp í sveitum, myndast sums staðar vandræðaástand, og nauðsynlegar framkvæmdir eru ekki gerðar. Því var á síðasta reglulegu þingi stofnaður með l. nýr hreppur fyrir austan fjall úr þorpi, sem þar hafði vaxið upp, og nú stendur til að fara eins með annað þorp á Austurlandi. En hvað snertir Glerárþorp og Glæsibæjarhrepp, þá er þar auðvitað engin framtíðarlausn önnur en skilja að sveitina og þorpið, og sýnist þá eðlilegast, að þorpið sameinist Akureyrarkaupstað, því að það er ekki annað en úthverfi kaupstaðarins, eins og allir sjá, er þar fara um. En þetta er ekki orðið, og þorpið er í vandræðum með sína vatnsveitu, og hygg ég, að þorpið eigi fullan rétt á að njóta sömu hlunninda og íbúar annarra þorpa.