16.04.1947
Efri deild: 119. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (3633)

148. mál, vatnsveitur

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Ég skal verða við ósk forseta og vera stuttorður. Um brtt. á þskj. 649 vil ég segja það, að ég get fallizt á hana, en tel hana ekki nauðsynlega, þó að hún megi heita skaðlaus. Hvað viðvíkur fyrirspurn hv. 1. þm. Eyf., þá hlýtur hún að vera komin fram af því, að þm. hefur ekki heyrt rök mín í málinu. Nefndin lítur svo á, að með því að leyfa vatnsveitufélög, þá sé horfið frá þeirri stefnu, að bæirnir eigi vatnsveiturnar, og hvar eru takmörk þessara vatnsveitufélaga? — Þau geta farið niður í fáa menn, og þá er algerlega breytt um stefnu í þessu máli. Ég skil ekki þá andúð hjá sveitarfélaginu á Glerárþorpi, ef það vill ekki nú, þegar ríkið leggur svo mikið fé til þessara mála sem hér er gert ráð fyrir, taka að sér þessa vatnsveitu.

Ég mun ekki misnota þolinmæði forseta og því láta bíða að svara þeim persónulegu ádeilum á mig, sem fram hafa komið. Væntanlega gefst tækifæri til þess síðar, þó að það verði í einhverju öðru máli.