22.04.1947
Neðri deild: 117. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (3642)

148. mál, vatnsveitur

Gunnar Thoroddsen:

Á Alþ. 1945 flutti ég till. til þál. um að skora á ríkisstj. að undirbúa l. um vatnsveitur. Það var þá komið í ljós, að ýmis kauptún áttu við þann skort að búa, að þau gátu ekki veitt sér þá miklu nauðsyn, sem vatnsveita er. Tilgangurinn var að láta ekki þetta viðgangast, en setja l. til styrktar þessu nauðsynjamáli, og því er þetta frv. fram komið. Í grg. er tekið fram að meiningin sé, að ríkið styrki vatnsveitur með ábyrgð á lánum og styrk. Athugun á þessum málum fór fram og segir svo í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Aðstaða kauptúnanna til þess að ná í gott neyzluvatn er allmisjöfn, en þó yfirleitt nokkuð örðug. Er augljóst, að sumum kauptúnanna er algerlega um megn að standa undir þessum kostnaði án aðstoðar ríkissjóðs, sérstaklega með ábyrgð á lánsfé eða jafnvel með beinum styrk.“ Í frv. er gert ráð fyrir, að ríkið veiti bein fjárframlög til stofnæða, þegar þær eru svo dýrar, að tekjur þær, sem vatnsveitan gæti fengið með vatnsskatti o. fl., geta ekki risið undir því. Frv. hlaut auðveldlega samþykki í þessari hv. d., en það fór um það eins og mörg önnur frv., að það spilltist mjög í hv. Ed., en hún hefur svo farið að, að styrkurinn hefur verið felldur niður, en í þess stað tekið upp lán, sem sé vaxta- og afborganalaust fyrstu 10 árin. Eins og frv. er nú, er það bersýnilegt, að það mundi stoða lítt og verða því til lítils gagns. Ég tel sjálfsagt, að þessi hv. d. færi það aftur í sama horf, og vil því mælast til þess, að hæstv. forseti fresti umr. og frv. verði vísað til heilbr.- og félmn.