25.11.1946
Efri deild: 19. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (3677)

80. mál, sóknargjöld

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér er sama hvaða n. fær þetta mál til meðferðar, en þeirri n., sem fær það til athugunar, vil ég benda á það, að á þskj. 88 (62. mál) liggur nú frv. fyrir Alþ. um það að velta kostnaði við kirkjubyggingar yfir á ríkissjóð. Það frv. lá einnig fyrir þinginu í fyrra, og ef þingvilji er fyrir því, að ríkið kosti kirkjubyggingar í landinu að þremur fjórðu hlutum, sé ég ekki beina ástæðu til að hækka kirkjugjaldið. Flm. frv. eru hv. þm. V-Sk., hv. þm. Snæf. og hv. 1. þm. Árn. Ég sé enga ástæðu til að gera hvort tveggja, hækka kirkjugjaldið og gera ríkinu að standa undir kostnaði við kirkjubyggingar að þremur fjórðu hlutum.

Það frv., sem hér er til umr., talar aðeins um safnaðarkirkjur, en ekki kirkjur í eign einstakra manna. Nú er mér spurn, og vil ég vekja athygli á því: Hvernig er það með bændakirkjur? Þær eiga sínar tekjur, en á bændunum hvílir einnig sú skylda að endurnýja kirkjur sínar. Getur ríkið eða kirkjan tekið þessar tekjur? Ég er í vafa um það. Ég bið þá n., sem fær þetta frv. til athugunar, að athuga þetta hvað með öðru.