25.11.1946
Efri deild: 19. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (3678)

80. mál, sóknargjöld

Hannibal Valdimarsson:

Ég er einn þeirra nm. í menntmn., er áskildu sér rétt til að hafa óbundnar hendur um þetta mál og afstöðuna til þess. Þessi fyrirvari minn miðast ekki við það, að ég undrist, þótt gjaldið til kirkjunnar sé hækkað. Kirkjan þarf fé til sinna ráðstafana eins og aðrir. Hitt gæti breytt málinu, ef þetta þing tæki á sig verulegar byrðar, sem hingað til hafa hvílt á kirkjunni eða söfnuðunum og á ég þá við kirkjubyggingar. Ástæðan til fyrirvara míns er hins vegar sú, að ég felli mig ekki við nefskattsfyrirkomulag sóknargjaldanna. Þetta gjald er eitt þeirra fáu gjalda, sem lendir á öllum, er lífsanda draga, hvort sem þeir eru ríkir eða blásnauðir, hraustir eða heilsulausir. Þetta er gjaldið til prests og kirkju. Að vísu er það ekki hátt, en sumir menn eru ekki færir um að gjalda neina skatta. Ég hefði talið rétt, að þetta gjald væri hundraðshluti af útsvörum, er væri t. d. jafnað niður samkv. fyrir fram gerðri áætlun sóknarnefnda. Þá væri tekið tillit til gjaldþolsins og ekkert heimt af þeim, sem ekkert eiga. Inn á þetta fyrirkomulag er gengið með nokkurn hluta gjaldsins samkv. 3. málsgr. þessa frv., þegar jafnað er niður viðbótargjaldi. En þetta gjald er ekki til að tvískipta því, og væri því eðlilegast, að það væri allt tekið á þennan hátt. Einnig gæti ég hugsað mér, að sveitarstjórnir tækju vissa upphæð af útsvörum, t. d. 10 krónur, og skiluðu sóknarn., er þær notuðu síðan til kirkjuþarfa, en lágmarksgjald þeirra, sem ekki bæri að greiða útsvör, væri t. d. 5 krónur. Með þessu móti yrði komizt hjá því að innheimta þetta litla gjald sérstaklega, en innheimta þess og útsvaranna félli saman. Ef einhver aukainnheimtukostnaður yrði, væri ekki nema rétt, að sveitarfélögin bæru hann, þar sem hér er þjóðkirkja og þjóðkirkjusöfnuðir. Ég hef þá lýst afstöðu minni til þessa máls og hef tilhneigingu til að bera fram brtt. í samræmi við það.