09.12.1946
Efri deild: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (3696)

80. mál, sóknargjöld

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég hef nú hlustað á þessar umr. mér til mikillar undrunar, því að satt að segja er ég undrandi yfir því, hvað þetta litla mál hefur komið mörgum hv. þm. til þess að halda ræður og gera till. um það, því að mér finnst það satt að segja svo ákaflega lítið mál samanborið við margt annað, að allar þær till., sem bornar hafa verið fram, svari varla til málsins og allar þær umr., sem fram hafa farið.

Í fyrsta lagi er deilt um það, hvort gjaldið eigi að vera nefskattur eða hundraðshluti af útsvörum, og get ég gjarnan út af því lýst því yfir, að ég er andvígur því yfirleitt, að gjöld séu tekin sem nefskattur að nokkru ráði. En það gjald, sem hér er um að ræða, er svo ákaflega lítið, 3 kr. á mann, að vísu að viðbættri verðlagsvísitölu, en nær þó ekki 10 kr. með núgildandi vísitölu, og í því peningaflóði, sem nú er að minnsta kosti í landi hér, tel ég, að þess gæti ekki mjög mikið. Menn ráða því, hvort þeir eru í kirkjufélagi eða ekki, alveg eins og menn ráða því, hvort þeir eru í öðrum félögum eða ekki. Félagsgjöld eru nefskattur. Menn verða að vera í stéttarfélögum, og þau gjöld eru innheimt sem nefskattur og eru í flestum tilfellum hærri en það gjald, sem hér er um að ræða. Í ýmsum öðrum félögum, sem menn vilja vera í, er tekið ákveðið gjald af hverjum meðlim, og öll þessi gjöld eru, að ég ætla, nokkru hærri en þetta gjald. Ég hygg, að leitun sé á félagi hér á landi, sem tekur lægra gjald af félagsmönnum en það, sem hér er farið fram á, tæpar 10 kr., svo að þetta út af fyrir sig finnst mér ekki gefa tilefni til breyt. En hvað þá leið snertir, sem farið er fram á á þskj. 170, þá gæti ég fyrir mitt leyti verið með að fara hana, ef um verulega upphæð væri þarna að ræða, sem skipt hefði miklu máli. En það er erfiðleikum bundið að innheimta á þann hátt í mörgum sveitarfélögum, þar sem er ekki ein sókn, heldur margar sóknir, t. d. hér í Reykjavík, og úti um land eru að minnsta kosti víða fleiri en ein sókn í hrepp. Nú þurfa gjöldin ekki endilega að að vera jöfn í sóknum og yrði í fyrsta lagi að leggja hundraðshlutagjald í hverri sókn á sóknarmeðlimina. En þá koma aðilar, sem eru í engri sókn, eða í hvaða sókn eru hlutafélögin í bænum? (SÁÓ: Það má deila þeim í sóknir.) Já, það er hægt, en það er erfitt og mjög vafasamt, að það svaraði kostnaði í slíku tilfelli, sem hér um ræðir. Ég sætti mig við það út af fyrir sig, að þetta mál verði samþ. svona Ég er því ekki svo mótfallinn, að ég vilji ekki una við það, en mér finnst það hæpið, að slíkt borgi sig, að ætla að fara að innheimta gjaldið á þann veg, að það mundi valda ýmsum erfiðleikum við innheimtuna, sem ekki mundu annars verða til staðar, ef hin leiðin væri farin.

Ég get fyrir mitt leyti fellt mig við brtt. hv. 1. landsk., þar sem hann vill færa aldurstakmarkið upp í 16 ár og ekki taka gjöld af öðrum en þeim, sem borga tekjuskatt og útsvar. Og hans brtt. er stíluð, að því er mér virðist, við frvgr. sjálfa, og er því hægt að samþykkja hana út af fyrir sig.

Um brtt. á þskj. 190, frá hv. þm. Barð., vil ég segja það, að ef hún yrði samþ. og gjaldið fært niður í 1,50 kr., þá efast ég ekki um, að það yrði of lágt í mörgum tilfellum, því að ég býst við, að 3 kr. gjaldið sé í sumum tilfellum of lágt. Nú hefur hv. þm. hér í sinni brtt. tekið burt þann möguleika, sem er í frvgr., að því, sem á vantar, yrði jafnað niður eftir efnum og ástæðum. Svo ég veit ekki, hvað slíkur söfnuður á að gera, sem þarf meira gjald fyrir sig en 1,50 kr., en fær ekki meira en 1,50 samkv. l. Í gildandi l. frá 1909 er gert ráð fyrir, hvernig að skuli farið, þegar gjald þetta hrekkur ekki til, en það á að falla niður samkv. brtt. á þskj. 190. Ég hygg, að það gjald, sem gert er ráð fyrir í frv., sé ekki of hátt.

Það má svo tala um það fram og aftur, hvort rétt sé að leggja í sérstakan sjóð til kirkjulegra starfa í landinu, og menn draga í efa, að rétt sé að innheimta í slíkan sjóð, eins og gert er ráð fyrir í frv. að verja fénu. Nú er það svo, að í frv. er ekki gert ráð fyrir, hvernig þessu fé verði varið til kirkjulegrar starfsemi. Og ég tel líka, að það megi ganga út frá því, að þessu fé verði varið á þann hátt, sem þeir yfirleitt gætu sætt sig við og mundu una við, sem yfirleitt vilja vera í kirkjufélagi og mundu bera gjaldið. En hvað þeir vilja um þetta segja, sem vilja ekki vera í kirkjufélagi, kemur ekki þessu máli við, því að þeir eru undanþegnir gjaldinu. Ég get vel fallizt á, að nauðsynlegt sé að hafa nokkurt fé til umráða til sameiginlegrar starfsemi, og væru einmitt mörg verkefni, sem þessi sjóður gæti haft og yrði fyrir, ef út í það væri farið. En mér þykir ekki ólíklegt eða óeðlilegt, að 1/6 hluti gjaldsins verði tekinn í þennan sjóð, ef menn vilja hafa þessa starfsemi með höndum. Svo er hitt allt annað, sem hv. 8. landsk. vill, að vilja fella fm. með öllu, og það er skiljanlegt frá hans hendi, því að hann er andvígur því, að slík starfsemi sé um hönd höfð hér á landi, og það er alveg hrein afstaða út af fyrir sig, en á þá skoðun skilst mér, að menn hafi ekki viljað fallast enn þá.

Yfirleitt finnst mér, að þessi málsmeðferð, sem hér hefur verið höfð, sé meiri en frv. gefur tilefni til og að þetta mál sé ekki þess virði, að um það séu hafðar svo miklar bollaleggingar. En ég hef með þessum orðum viljað gera grein fyrir afstöðu minni til einstakra brtt., sem fram hafa komið, og mér virðast þær frekar þýðingarlitlar, en ég mundi geta sætt mig við það, þó að þær yrðu samþ., enda þótt ég geti ekki mælt með neinni þeirra nema þeirri skrifl. brtt., sem borin var fram af hv. 1. landsk.