29.11.1946
Efri deild: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

19. mál, skemmtanaskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. — það er auðvitað ekki nema sjálfsagt, að rekstur kvikmyndahúsa borgi allháa skatta til hins opinbera. og það hefur löngum verið svo, að þessi rekstur hefur samkvæmt l. átt að borga allháa skatta. Ég held, að skemmtanaskattur kvikmyndahúsa hafi verið 18–20% af rekstrinum, og á þetta hefur svo bætzt 200% álagning á stríðsárunum. það er vitað, að í Reykjavík og á öðrum stöðum úti um land, þar sem allt fylltist af erlendu herliði, þá margfaldaðist hagnaður kvikmyndahúsanna á þessum stöðum. og efast ég ekki um, að rekstur þeirra gat risið undir þessu 200% álagi þar, en mér er það jafnljóst, að á stöðum, þar sem kvikmyndarekstur var rekinn. en ekkert herlið var, þá gekk þetta mjög nærri þessum fyrirtækjum, þannig að þau gætu borið sig. það er hins vegar enginn vafi á því, að á stöðum úti á landi, þar sem farið er mjög að draga úr fjárhagsgetu manna, sérstaklega á stöðum, þar sem sjávarútvegurinn er sem stendur stöðvaður og allt miðast við afkomu hans, þá verður 200%, álag á skemmtanaskatt kvikmyndahúsanna á þessum stöðum til þess, að rekstur þeirra verður með halla, en það getur aldrei verið tilætlunin með skattaálagningu að ganga svo nærri neinum rekstri. Þetta segi ég ekki af því, að ég telji ekki sjálfsagt að ganga allnærri svona starfsemi í skattaálagningum. en hins vegar ber að taka tillit til þess, þar sem ástandið hefur breytzt og aðstæður eru ólíkar. Ég vil taka undir það með hv. frsm., að eðlilegra væri að ákveða með lagabreyt., hvað skattaálagningin á þennan rekstur ætti að vera, heldur en að framlengja frá ári til árs ákvæði, sem miðuð eru við sérstakt ástand. Ég mundi telja fulla ástæðu til að framlengja þennan skatt í þetta sinn með þeirri breyt. að af kvikmyndahúsum utan Reykjavíkur verði innheimtur skemmtanaskattur með 100% álagi, en af kvikmyndahúsum í Reykjavik með 200% álagi, því að kvikmyndahúsrekstur í Reykjavík hefur sérstöðu fram yfir alla aðra staði landsins.